Vöðuselskópur í Skagafirði

Í nýjasta tölublaði Feykis er greint frá vöðuselskópi sem fannst í fjörunni skammt frá gömlu brúnni við Vesturós Héraðsvatna. Í greininni er vitnað í Söndru Granquist deildarstjóra lífrræðirannsóknarsviðs Selasetursins.

Mikilvægt er fyrir sérfræðinga Selasetursins að fá upplýsingar eins og þessar til að skrá, sérstaklega um þær tegundir sem alla jafna kæpa ekki hér við land. 

Nánari upplýsingar um vöðuseli má finna hér.

 

 

Grein Feykis.

Sarah Marschall ver meistararitgerð sína

Á síðasta ári var Sarah Marschall við rannsóknir á hegðun ferðamanna við Illugastaði á Vatnsnesi í tenglsum við meistaraverkefni sitt við Háskólasetur Vestfjarða. Í dag, þriðjudaginn 28. apríl, kl. 14:00, mun Sarah kynna og verja ritgerð sína, sem ber titilinn:Interpretation in Wildlife Tourism: Assessing the effectiveness of signage to modify visitor’s behaviour at a seal watching site in Iceland.  

Leiðbeinendur hennar eru Sandra M. Granquist, doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla og yfirmaður selarannsókna hjá Selasetri Íslands og dr. Georgette Leah Burns, deildarstjóri ferðamáladeildar við Háskólann á Hólum. Prófdómari er Rodrigo Menafra, gestakennari við Háskólasetur Vestfjarða.

Nánari upplýsingar og ágrip má finna hér.

Sarah Marschall

Sarah Marschall in the field.

Spennandi starf á Selasetrinu og Háskólanum á Hólum

Sérfræðingur óskast til starfa við Selasetur Íslands og Háskólann á Hólum

Við ferðamáladeild Háskólans á Hólum er lögð áhersla á ferðamál í dreifbýli í rannsóknum og kennslu. Meginmarkmið Selaseturs Íslands er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland. Starfsaðstaða í Selasetri Íslands á Hvammstanga og í háskólaþorpinu á Hólum er góð, þar eru fjölskylduvæn samfélög og falleg náttúra. Sjá nánar á www.selasetur.is og www.holar.is.

Í starfinu felst:

  • kennsla og rannsóknir
  • þátttaka í uppbyggingu náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
  • þátttaka í stefnumótun og fjármögnun rannsóknaverkefna Selaseturs Íslands og Háskólans á Hólum í nánu samstarfi við aðra starfsmenn stofnananna

Við leitum að einstaklingi með:

  • doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdra fræðasviða
  • góða þekkingu á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu og/eða byggðaþróunar með áherslu á heimskautasvæði og ferðamál í dreifbýli
  • reynslu af rannsóknum, kennslu, stjórnun og þróunarstarfi
  • ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum 

Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 15. ágúst 2015 og er krafist búsetu á Hvammstanga.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Georgette Leah Burns deildarstjóri ferðamáladeildar (sími 863 0308, netfang leah@holar.is) eða Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands (sími 451 2345, netfang selasetur@selasetur.is).

Umsóknarfrestur er til 15. maí 2015. Umsóknir ásamt afritum af prófskírteinum, ferilskrá og samantekt fræðastarfs sendist á netfangið umsoknir@holar.is eða til Háskólans á Hólum b/t Erla Björk Örnólfsdóttir, 551 Sauðárkróki.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

 

Góð þátttaka á námskeiði

Á dögunum stóðu Ferðamálasamtök Norðurlands vestra fyrir námskeiði fyrir ferðaþjónustuaðila og áhugafólk um fuglaskoðun. Á námskeiðinu var fjallað um vöruþróun á náttúrutengdri ferðaþjónustu með áherslu á góða umgengni gagnvart náttúru og samfélagi og fjárhagslegan hagnað fyrirtækis eða samfélags.

Námskeiðið er liður í verkefni sem Selasetur Íslands stýrir fyrir hönd Ferðamálasamtakanna og fleiri um þróun Fuglastígs á Norðurlandi vestra. Vinna við verkefnið hefur staðið í á annað ár og útlit er fyrir að fyrir lok maí verði tilbúið fyrsta fuglastígskortið á Norðurlandi vestra.

Góð þátttaka var á námskeiðinu og umræður góðar. Mál manna eftir námskeiðið var að mikil tækifæri væru fólgin í þjónustu við fuglaáhugamenn á svæðinu.

Kennari á námskeiðinu var Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeild Hólaskóla, umhverfisfræðingur og menntaður leiðsögumaður.

Þátttakendur á fuglastígsnámskeiði

Hluti þátttakenda á námskeiðinu. 

Hvernig metum við hið ómetanlega

Dagana 16. og 17. apríl verður haldin ráðstefna á Hólum í Hjaltadal sem ber yfirskriftina Hvernig metum við hið ómetanlega. Meðal fyrirlesara verður Dr. Leah Burns, deildarstjóri ferðamálarannsóknasviðs Selasetursins og heldur hún erindi í efnisflokknum um Auðlindanýtingu í hnattrænu samhengi: Nærumhverfi, þjóðarumhverfi, heimsumhverfi. Hvaða skuldbindingar, réttindi og mögulegur ágreiningur tengjast misþröngri sýn á auðlindanýtingu.

Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

Dr. Leah Burns

Dr. Leah Burns