Rostungur (Odobenus rosmarus)

Rostungur

Rostungur er engum öðrum sel líkur enda af sér ætt. Hann er mjög stór, ljósbrúnleitur með þykka, hrukkótta húð, stutt gróf hár og gríðarstórar höggtennur. Höggtennur rostunga vaxa alla ævina og geta brimilstennur orðið allt að meter á lengd og 5 kg á þyngd. Rostungarnir nota tennurnar í félagslegum tilgangi, þ.e. til að sýna stöðu einstaklingsins innan hópsins og sem vopn ef með þarf. Algengt er að þeir nái lifa til 20-30 ára aldurs. Það er auðvelt að aldursgreina þá út frá árhringjunum sem myndast á tönnunum.

Rostungar eru risavaxin dýr og geta brimlar orðið um 4 m að lengd og um 1,5 tonn.  Kópar fæðast um 130 cm að lengd og 50-60 kg að þyngd.

Heimkynni rostunga eru rekísbreiður á grunnsævi með ströndum Norður-Íshafsins. Rostungar fylgja ísröndinni eftir þegar að hún færist árstíðabundið, en hafast ekki við á óbrotnum lagnaðarís.

Til eru tveir stofnar rostunga, Atlantshafsrostungur og Kyrrahafsrostungur. Atlantshafsstofninn er annars vegar við Austur-Grænland, Spitsbergen, Frans Jósepsland, í Barentshafi og Karahafi, og hins vegar við Austur-Kanada og Vestur-Grænland. Kyrrahafsrostungarnir halda sig í Berings- og Tsjúkothafi og í kringum Wrangeleyju.

Sökum atferlis og búsvæða rostunga er mjög erfitt að kasta tölu á stofnstærð þeirra. Talið er að Atlantshafsstofninn telji um 30.000 dýr en Kyrrahafsstofninn á bilinu 200-250 þúsund dýr.

Rostungar eru mjög sjaldgæfir við Ísland, en hafa m.a. séðst:

  • við Selvík á Skaga, 3. september árið 2002
  • hjá Hrafnabjörgum í Arnarfirði (Vestur Ísafjarðarsýslu) árið 2005
  • í Ófeigsfirði á Ströndum í júlí árið 2008.
  • Langanesströnd, 7. júní 2015
  • í Álftafirði (Austfjörðum; við Djúpavog) í júlí 2018.
  • á Höfn í Hornarfirði, 19. september 2021

Beinleifar rostunga hafa fundist hér á landi, flestar við vestanvert Ísland, sem bendir til að rostungar hafi á einhverjum tíma haft þar búsetu.  Samkvæmt nýju rannsóknum (útgefnum 2019) sem Náttúruminjasafn Íslands hefur m.a. unnið að, þá var til séríslenskur rostungastofn sem þreifst hér í um 7.000-8.000 ár. Ofveiði varð honum líklega að aldurtila, en þessi stofn varð útdauður 200-400 árum eftir landnám.

Fæða rostunga eru botnhryggleysingjar, eins og skeljar, skrápdýr, krabbadýr o.fl. Sumir rostungar ráðast á minni seli, þá aðallega rostungsbrimlar.

Fyrr á öldum var mikið veitt af rostungum við Norðurheimsskautið og voru afurðir þeirra m.a. afar eftirsóttar á landnámstíma í Evrópu. Árið 1952 var rostungurinn friðaður en ennþá eru leyfðar s.k. frumbyggjaveiðar.

Útbreiðsla rostunga – Heimild: https://en.wikipedia.org/wiki/Walrus
Rostungur á Langanesi 7. júní 2015, Mynd Stefán R Sigurbjörnsson.