Hringanóri (Phoca hispida)

Hringanóri

Hringanórinn er einkennisdýr Heimskautaíssins á Norðurslóðum og hafa frumbyggjar þar treyst mjög á hann til viðurværis í gegnum aldirnar. Hefur hann verið nýttur til matar, skinnið nýtt í klæði og spikið sem ljósgjafi. Hringanóri er sjaldgæfur flækingur við Ísland.

Í útliti svipar hringanóranum að nokkru til landsels, en er heldur minni enda minnstur norrænna sela.  Nafn sitt dregur hann af hringlaga flekkjum á baki með ljósum hringjum í kring.

Hringanórinn kæpir í mars, í eins konar snjóhúsi, sem urtan grefur við op í gegnum lagnaðarísin, en hann getur hæglega verið um 2,5 metra þykkur. Í gegnum þetta op sækir urtan svo æti. Þessum opum halda selirnir svo opnum með nagi og klóri. Fæða hringanórans samanstendur aðallega af krabbadýrum og ískóði.

Til Íslands koma hringanórarnir einir eða fáir saman. Oftast er um að ræða fullorðna brimla, en ekki er mikið um ungviði. Þeir koma reglulega inn á Eyjafjörð alveg inn á Poll, á vorin og snemmsumars.
Stofnstærð hringanóra er lítt þekkt en gæti verið á bilinu 6-7 milljónir. Sérstakir stofnar þeirra (Phoca hispida) eru í Eystrasalti, Otkoskahafi, Beringssundi og Saima og Ladoga vötnum í Finnlandi. Í Kaspíahafi og Bajkalvatni er afbrigði hringanóra sem nú eru orðin sér tegundir (Phoca caspica og Phoca sibirica).