Selasetur Íslands var stofnað árið 2005 og er hlutverk þess að standa fyrir rannsóknum á selum og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Selasetrið er staðsett á Hvammstanga þar sem það stundar rannsóknir, ásamt því að reka fræðslumiðstöð fyrir almenning og ferðamenn um líffræði og hegðun sela við Ísland. Selasetrið safnar saman heimildum um selveiðar, vinnslu selafurða og hlunnindabúskap. Selasetrið stuðlar að uppbyggingu sjálfbærrar náttúrutengdrar ferðaþjónustu og stendur fyrir rannsóknum á því sviði. Selasetrið er í margvíslegu samstarfi við vísindastofnanir og einstaklinga á sínu sviði bæði innanlands og erlendis. Aðalsamstarfsaðilar í dag eru Náttúrustofa Norðurlands vestra, Háskólinn að Hólum, BioPol og Hafrannsóknastofnun. Eining er Selasetrið í samstarfi við erlendar stofnanir og háskóla eins og Stokkhólmsháskóla.
Með samning við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem gerður var þann 27. ágúst 2010 var ákveðið að rannsóknir á sel við Ísland verði framvegis undir umsjón Selaseturs Íslands en unnar í samstarfi við Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun auk þess sem samvinna og samráð verði haft við aðrar rannsóknastofnanir, Bændasamtök Íslands, veiðifélög og Félag selabænda eftir því sem tilefni er til. Í samningnum felst meðal annars að Selasetrið ber ábyrgð á og stendur að árlegu stofnstærðarmati selastofnanna við Ísland, auk þess að halda utanum upplýsingar varðandi veiðar á selum við Ísland.
Meginrannsóknir Selasetursins eru á selastofnum við Ísland. Meðal annars snúa rannsóknirnar að vöktun á stofnstærð útsels- og landsels við Ísland og ferðum annarra selastofna til Íslands og íslenskra stofna til nágrannalandanna.
Markmið og framtíðarsýn
Markmið Selaseturs Íslands er að vera leiðandi í rannsóknum á sel við Ísland og standa fyrir fræðslu um seli. Vinna að uppbyggingu selaskoðunar sem afþreyingu í ferðaþjónustu, auk þess að rannsaka og byggja upp náttúrutengda ferðaþjónustu. Selasetrið hyggst ná þessum markmiðum sínum með því að efla eigin starfsemi og þekkingu innan félagsins, fjölga starfsfólki, sérfræðingum og samstarfsaðilum, vinna að auknu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, ásamt því að koma á samstarfverkefnum bæði innanlands og utan. Selasetrið leggur áherslu á að hafa færustu vísindamenn á sínum snærum og að vinna í nánu samstarfi við rannsóknastofnanir og sérfræðinga. Fræðsludeild Selasetursins miðlar síðan upplýsingum um rannsóknirnar og lifnaðarhætti sela til alþjóðasamfélagsins, almennings og ferðamanna.
Meginmarkmiðum Selaseturs Íslands má skipta upp í fjóra liði:
- Selasetrið verði leiðandi í uppbyggingu sjálfbærrar náttúrutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi, einkum er varðar selaskoðun.
- Hafa yfirumsjón með rannsóknum og upplýsingaöflun um sel við Ísland ásamt miðlun hverskyns upplýsinga og fræðslu um lífshætti og stöðu selastofna við landið. Í því felst meðal annars að rannsaka lifnaðarhætti sela við Ísland, vakta stærð og samsetningu selastofna og fylgjast með útbreiðslu og ferðum flækingsstofna við Ísland. Einnig kanna möguleika á nýtingu selaafurða, vinna með stjórnvöldum að lagasetningu um selveiðar og nýtingu selaafurða og stuðla að varðveislu á verkkunnáttu tengdri selahlunnindum ásamt bættri umgegni við selastofna við Ísland.
- Vinna að rannsóknum á náttúrutengdri ferðaþjónustu og áhrifum aukinnar ferðaþjónustu á náttúru og dýralíf landsins.
- Sinna fræðslu um seli við Ísland og upplýsingagjöf um ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra.