Umhverfisstefna Selaseturs

Starfsemi Selaseturs Íslands er fjórþætt:

  1. Rannsóknir á sel við strendur Íslands, hegðun ferðamanna og áhrifum þeirra á náttúru og umhverfi
  2. Rekstur fræðslusafns um seli
  3. Miðlun upplýsinga til almennings og ferðafólks í Húnaþingi vestra
  4. Rekstur ferðaskrifstofunar Seal Travel í fjáröflunarskyni fyrir Selasetrið

Á þessum sviðum öllum leitast Selasetur Íslands  og starfsmenn þess  við að halda þessa umhverfisstefnu í heiðri.

Helstu þættir í umhverfisstefnu Selasetursins:

  • Lögð er áhersla á ábyrgar rannsóknir og miðlun upplýsinga um seli við strendur Íslands auk varðveislu menningarminja og upplýsinga um selveiðar við strendur Íslands.
  • Leitast er við að rannsaka áhrif ferðamanna á náttúru og dýralíf og stuðla að sjálfbærri þróun og umhverfisvænni ferðaþjónustu.
  • Leitast er við að halda starfsumhverfi og húseignum Selaseturs Íslands  í snyrtilegu ástandi svo bæjarprýði sé af, bæði inna dyra og utan.
  • Umhverfisvænar starfsvenjur verði hafðar í heiðri í hvívetna, svo sem lágmörkun orkunotkunar og sorps frá starfseminni.
  • Lögum og reglugerðum um umhverfis- og náttúruvernd sé fylgt og helst gert betur en kröfur segja til um.

Markmið og leiðir

Markmið og leiðir í umhverfisstefnu Selaseturs Íslands séu skýr, öllum sýnileg og til hagsbóta fyrir umhverfið. Markmiðin og árangurinn við að ná þeim sé endurskoðaður á hverju ári.

Rannsóknir og miðlun upplýsinga

  • Rannsóknarniðurstöðum séu gerð góð skil á fræðslusýningu og upplýsingar birtar á heimasíðu Selasetursins.
  • Munir í eigu Selasetursins séu skráðir í safnskrá og séu aðgengilegir fyrir gesti, merktir og með viðunandi upplýsingum
  • Allar upplýsingar  á sýningu Selasetursins séu aðgengilegar á íslensku og minnst einu erlendu tungumáli.
  • Lán muna til Selasetursins frá öðrum söfnum/stofnunum séu skráð.
  • Rannsóknir á selum og áhrifum ferðamanna valdi ekki skaða á náttúrunni, hvort sem er með álagi eða raski. Allt rusl sem fylgir rannsóknum og ferðum starfsfólks verði fjarlægt og fargað á viðeigandi hátt.

Ásýnd og aðkoma

  • Starfssvæði Selaseturs sé snyrtilegt og hreint. Reglulega sé rusl hreinsað á lóð við sýningu og skrifstofu auk fjörunnar vestan við sýningarhús.
  • Merkingar á munum á lóð séu greinilegar og upplýsandi á íslensku og minnst einu öðru erlendu tungumáli.
  • Húsakynnum sé við haldið í góðu ásandi innan sem utan.

Mengun og orkunotkun

  • Lögð verði áhersla á notkun umhverfisvænna vara við starfsemi Selasetursins þegar þess er kostur,  þ.e. úr endurunnu hráefni og frá umhverfisvottuðum framleiðendum.
  • Gengið sé um birgðir með ábyrgum hætti til að koma í veg fyrir sóun.
  • Ekki sé tekið við meira magni af bæklingum en sem passar í bæklingastanda til að koma í veg fyrir að fleygja þurfi miklu magni bæklinga í lok sumars.
  • Þegar þess er kostur séu vörur og þjónusta keyptar af aðilum í heimabyggð.
  • Allur úrgangur sé flokkaður í samræmi við flokkunarmöguleika Hirðu auk þess að dósir og flöskur eru settar í endurvinnslu.
  • Efni á rannsóknarstofu séu notuð með ábyrgum hætti og þeim fargað í samræmi við lög og reglugerðir.
  • Spilliefnum og öðrum mengandi efnum komið á viðeigandi stað til förgunar.
  • Notkun hreinsiefna takmörkuð og leitast við að nota umhverfisvæn efni.
  • Slökkt sé á ljósum og rafmagnstækjum þegar þau eru ekki í notkun og sparperur notaðar ef þess er nokkur kostur.
  • Dregið sé pappírsnotkun með því að prenta beggja vegna á pappír.
  • Starfsfólk hafi í huga að spara prentun þegar hægt er.
  • Blekhylkjum úr prenturum sé komið til endurvinnslu.
  • Ferðalög starfsmanna séu lágmörkuð með því að leitast við að halda símafundi þegar hægt er. Ef ferðir eru nauðsynlegar skal reynt að samnýta bíla eða nýta almenningssamgöngur.

Ferðamenn

  • Leitast verði við að fræða ferðamenn um góða umgengni um landið og hugsanlega áhrif ferðalaga á náttúruna.
  • Ferðamönnum sé leiðbeint um hegðun í nánd við villt dýr og á heimasíðu Selaseturs séu slíkar leiðbeiningar aðgengilegar (Code of Conduct).
  • Ferðafólki sé vísað á þá staði þar sem áhrif ferðaþjónustu á umhverfi og dýralíf hefur verið lágmörkuð og umferð er leyfð af landeigendum. Ferðamönnum séu veittar góðar upplýsingar um náttúru svæðisins, dýralíf þess og afþreyingarmöguleika.

Um lög, þróun umhverfisstefnunnar og miðlun hennar

  • Lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál sé fylgt í hvívetna og helst gert betur en þau kveða á um.
  • Unnið verði að umhverfisstefnunni í samráði við þá aðila á svæðinu sem koma að umhverfismálum og geta veitt upplýsingar um framkvæmd ákveðinna þátta. Svo sem sveitarfélag, sorphirðufyrirtæki, önnur fyrirtæki í svipaðri starfsemi eða einstaklingar.
  • Umhverfisstefnan verði endurskoðuð árlega í tengslum við aðalfund Selaseturs Íslands og lagt mat á þann árangur sem hefur náðst á árinu.
  • Umhverfisstefnan verði aðgengileg almenningi innan veggja fræðslusafns Selaseturs sem og á heimasíðu þess.
  • Allir starfsmenni fái fræðslu um stefnuna og hvað hún felur í sér þegar þeir hefja störf og í það minnsta árlega eftir það.
  • Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að stefnunni sé framfylgt í hvívetna, ber ábyrgð á endurskoðun hennar og mati á árangri. Framkvæmdastjóri svarar einnig fyrirspurnum sem upp kunna að koma í tengslum við stefnuna.

Sett í nóvember 2014 og staðfest á aðalfundi í maí 2015