Góð þátttaka á námskeiði

Á dögunum stóðu Ferðamálasamtök Norðurlands vestra fyrir námskeiði fyrir ferðaþjónustuaðila og áhugafólk um fuglaskoðun. Á námskeiðinu var fjallað um vöruþróun á náttúrutengdri ferðaþjónustu með áherslu á góða umgengni gagnvart náttúru og samfélagi og fjárhagslegan hagnað fyrirtækis eða samfélags.

Námskeiðið er liður í verkefni sem Selasetur Íslands stýrir fyrir hönd Ferðamálasamtakanna og fleiri um þróun Fuglastígs á Norðurlandi vestra. Vinna við verkefnið hefur staðið í á annað ár og útlit er fyrir að fyrir lok maí verði tilbúið fyrsta fuglastígskortið á Norðurlandi vestra.

Góð þátttaka var á námskeiðinu og umræður góðar. Mál manna eftir námskeiðið var að mikil tækifæri væru fólgin í þjónustu við fuglaáhugamenn á svæðinu.

Kennari á námskeiðinu var Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeild Hólaskóla, umhverfisfræðingur og menntaður leiðsögumaður.

Þátttakendur á fuglastígsnámskeiði

Hluti þátttakenda á námskeiðinu.