Vöðuselur (Phoca groenlandica)

Vöðuselur

Vöðuselur er algengur flækingur á sumrin við norðanvert landið, þar á meðal við Húnaflóa. Selirnir eru félagslynd dýr og koma margir saman í torfum, þá mest þegar að hafís er nálægt ströndinni.

Vöðuselur er svipaður landsel að stærð, en mjög ólíkur að lit. Ungir selir eru gráir einlitir með svörtum blettum en fullvaxinn er selurinn svartskjöldóttur, með svartan haus og svartan dindil.

Kæpingartími vöðusela er frá seinni hluta febrúar fram í miðjan mars, en þá safnast þeir saman í stórar vöður til þess að kæpa á rekísnum.Vöðuselir kæpa ekki hér við land en kópar og ung dýr festast oft í fiskinetum.

Vöðuselir éta mest loðnu, síli og síld. Á Íslandsmiðum éta þeir síli, þorsk, loðnu, rækju, ljósátu og smokkfisk.

Í Norður – Atlantshafi eru þrír mjög stórir stofnar vöðusels, þeir kæpa í Barentshafi, Íslandshafi (norðan Jan-Mayen) og við Nýfundnaland. Vöðuselirnir sem hingað koma eru líklega úr Jan-Mayen stofninum.

Miklar veiðar voru stundaðar úr þessum stofnum á árum áður af Norðmönnum, Rússum og Kanadamönnum. Nú eru þær litlar sem engar vegna slæmrar stöðu selskinnsmarkaða.
Stofnstærð vöðusela í heiminum er talin vera á tíundu milljón. Vöðuselir virðast fleiri nú fyrir Norðurlandi, en fyrir um 25 árum, en þó ekki nema brot af því er var á hafísárum á 19. og 20. öld, þegar má segja að um innrásir þeirra hafi verið að ræða á Íslandsmið.

Mynd: Jón Baldur Hlíðberg