Nýr framkvæmdastjóri Selaseturs

Í byrjun sumars sagði framkvæmdastjóri Selasetursins, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, starfi sínu lausu. Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og mun Sigurður Líndal Þórisson taka til starfa þann 1. október. Unnur mun gegna starfi framkvæmdastjóra þangað til. 

Sigurður  er frá Lækjamóti í Víðidal, en hefur búið í Lundúnum í 20 ár. Síðastliðin 4 ár hefur hann verið í stjórnunarstöðu hjá Expedia, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims. Þar leiddi hann m.a. farsællega til lykta flókið verkefni sem unnið var á 20 tungumálum, í 3 heimsálfum, og kostaði rúman milljarð króna.

Sigurður er með leikarapróf frá Arts Educational London School of Drama; M.A. gráðu í listastefnu og -stjórnun frá Birkbeck College, University of London; og kennsluréttindi frá Strode’s College.

Sigurður hefur leikstýrt á sjötta tug leikverka, og kenndi við suma virtustu leiklistarskóla Bretlandseyja í meira en áratug, auk þess að vera aðstoðarleikhússtjóri Tabard leikhússins í Lundúnum í 3 ár. 

Sigurður er giftur Gretu Clough, brúðulistamanni og leikara frá Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Þau eiga ársgamla dóttur, Elínu Rannveigu Líndal.

Stjórn Selasetursins býður Sigurð velkominn til starfa. Stjórnin vill jafnframt þakka Unni Valborgu fyrir það góða starf sem hún hefur innt af hendi þau tvö ár sem hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri Selasetursins og óska henni velfarnaðar í komandi verkefnum. 

Sigurður Líndal Þórisson

Niðurstöður Selatalningarinnar miklu 2015

Selatalningin mikla var haldin á vegum Selaseturs Íslands þann 19. júlí s.l. Talningin hefur farið fram árlega síðan árið 2007 og var þetta því í níunda sinn sem hún fer fram. Markmið talningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands.

Selir voru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi  í Húnaþingi vestra, samtals um 100km. Sjálfboðaliðar aðstoðuðu sérfræðinga Selasetursins við talninguna.  Með því móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma. Í ár tóku um 50 manns þátt í talningunni og voru það bæði erlendir og íslenskir ferðamenn á leið um landið. Sumir landeigendur töldu sjálfir í sínu landi og  selaskoðunarbáturinn Brimill sem gerir út frá Hvammstanga, aðstoðaði einnig við talninguna. Selasetrið þakkar þátttakendum fyrir þátttökuna en metþátttaka var í ár.

Í ár sáust samtals 446 selir á svæðinu (aðallega landselur). Það er minnsti fjöldi sem talinn hefur verið á þessu svæði, en í talningunum árin 2011-2014 hefur fjöldinn verið á bilinu 614 og 757 dýr en árin þar á undan (2007-2010) yfir 1000 dýr. Þrátt fyrir að tölurnar gefi vísbendingu um fækkun er mikilvægt að hafa í huga að talningarnar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda þeirra sela sem dvelja á þessu svæði. Margir þættir hafa áhrif á fjölda sela sem liggja uppi í látrunum hverju sinni og er veður einn þeirra. Í ár var veðrið verra en oft áður, þoka, rigning og gola og hitastigið aðeins rúmlega 6 gráður. Skilyrðin fyrir selinn að liggja upp á landi voru því sem verst þegar talningin fór fram, því þeir kjósa helst að liggja upp á landi í sóliskini, logni og bliðu.

Athuga ber að tölurnar segja ekki til um ástand landsselsstofnsins í heild. Stofnstærðarmat á landsel hefur ekki farið fram siðan árið 2011, en þá var stofnin metin til um 12.000 dýr. 2014 var hluti stofnsins talin og benda þær talningar til töluverðar fækkunnar á stofninn. Ekki hefur fengist nægilegt fjármagn til að framkvæma heildartalningu á stofninum, en Selasetrið vonast til að geta framkvæmt slíkar talningar á næsta ári.

 

Tilraunir með hitamyndavél

Selasetrið hefur í sumar unnið að frumtilraun þar sem hitamyndavél er fest á flygildi (drone) sem flogið er yfir sellátur til að taka myndir. Einnig er venjuleg myndavél fest á flygildið. Í verkefninu verða loftmyndir teknar með hitamyndavél bornar saman við venjulegar loftmyndir, ásamt talningarniðurstöður talninga frá landi.

Stofnstærðartalningar á landsel fara yfirleitt fram úr lofti, en þar sem stundum getur verið erfitt að greina seli frá umhverfinu, er núna gerð tilraun til að ná fram nákvæmari niðurstöðum með því að gera bæði heðbundnar talniningar og talningar með hjálp hitamyndavélar. Markmið verkefnisins er að áætla hvort hitamyndavélar gefi nákvæmari talningarniðurstöður og geti jafnvel verið kostur þegar áætla á stofnstærð landsela. Verkefnið er unnið í samstarfi við Svarma ehf og styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Thermal Camera

 

Hitamyndavéla eins og sú sem notuð er í verkefninu

Gestakomur í júní

Gestakomur á Selasetrið hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Nýliðinn júnímánuður var þar engin undantekning. Heildarfjöldi gesta í upplýsingamiðstöðina á Selasetrinu  í júní í ár jókst um tæplega 35% samanborið við sama mánuði í fyrra. Þessi aukning á milli ára er umtalsvert meiri en aukningin á milli áranna 2013 og 2014. Í júní 2014 komu 14% fleiri gestir í upplýsingamiðstöð Selasetursins en á árinu 2013. 

Á árinu 2014 sóttu alls um 20 þúsund gestir upplýsingamiðstöðina heim og má ætla að í ár verði fjöldinn á bilinu 23-25 þúsund gestir.

Það er því ljóst að aukinn fjöldi ferðamanna á landinu er í sí auknu mæli að skila sér í Húnaþing vestra enda er þar að finna áhugaverð svæði til náttúruskoðunar og góða þjónustu fyrir ferðamenn.

Selatalningin mikla 2015

Í selatalningunni miklu eru selir taldir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, en svæðinu er skipt upp í mörg misstór svæði (um 2-7 km löng) og ættu allir finna allir vegalengd við sitt hæfi. Selatalningin mikla er skemmtileg upplifun og það er vel þess virði að koma og taka þátt í rannsóknarstörfum setursins. Eftir talninguna verða kaffiveitingar í boði fyrir þátttakendur.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína í síðasta lagi 15. júlí. Til að skrá sig og fá nánari upplýsingar má hafa samband á netfang info@selasetur.is  eða í síma 451-2345.

Ath! Talningin hentar ekki börnum undir 5 ára og börn á milli 5 og 15 ára mega bara taka þátt í fylgd forráðamanna.