Niðurstöður Selatalningarinnar miklu 2015

Selatalningin mikla var haldin á vegum Selaseturs Íslands þann 19. júlí s.l. Talningin hefur farið fram árlega síðan árið 2007 og var þetta því í níunda sinn sem hún fer fram. Markmið talningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands.

Selir voru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi  í Húnaþingi vestra, samtals um 100km. Sjálfboðaliðar aðstoðuðu sérfræðinga Selasetursins við talninguna.  Með því móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma. Í ár tóku um 50 manns þátt í talningunni og voru það bæði erlendir og íslenskir ferðamenn á leið um landið. Sumir landeigendur töldu sjálfir í sínu landi og  selaskoðunarbáturinn Brimill sem gerir út frá Hvammstanga, aðstoðaði einnig við talninguna. Selasetrið þakkar þátttakendum fyrir þátttökuna en metþátttaka var í ár.

Í ár sáust samtals 446 selir á svæðinu (aðallega landselur). Það er minnsti fjöldi sem talinn hefur verið á þessu svæði, en í talningunum árin 2011-2014 hefur fjöldinn verið á bilinu 614 og 757 dýr en árin þar á undan (2007-2010) yfir 1000 dýr. Þrátt fyrir að tölurnar gefi vísbendingu um fækkun er mikilvægt að hafa í huga að talningarnar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda þeirra sela sem dvelja á þessu svæði. Margir þættir hafa áhrif á fjölda sela sem liggja uppi í látrunum hverju sinni og er veður einn þeirra. Í ár var veðrið verra en oft áður, þoka, rigning og gola og hitastigið aðeins rúmlega 6 gráður. Skilyrðin fyrir selinn að liggja upp á landi voru því sem verst þegar talningin fór fram, því þeir kjósa helst að liggja upp á landi í sóliskini, logni og bliðu.

Athuga ber að tölurnar segja ekki til um ástand landsselsstofnsins í heild. Stofnstærðarmat á landsel hefur ekki farið fram siðan árið 2011, en þá var stofnin metin til um 12.000 dýr. 2014 var hluti stofnsins talin og benda þær talningar til töluverðar fækkunnar á stofninn. Ekki hefur fengist nægilegt fjármagn til að framkvæma heildartalningu á stofninum, en Selasetrið vonast til að geta framkvæmt slíkar talningar á næsta ári.