Niðurstöður rannsókna á ummerkjum eftir sel á laxfiskum

Á dögunum var birt skýrsla með niðurstöðum rannsóknar á ummerkjum eftir landsel á veiddum löxum og silungum. Ummerkin voru könnuð á axfiskum sem veiddir voru í Vatnsdalsá og Laxá á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, ásamt Víðidalsá, Gljúfurá og Miðfjarðará í Húnaþingi vestra árin 2009 og 2010. Veiðimenn í þessum ám voru beðnir að skrá öll ummerki sem sáust á veiddum fiskum, ásamt því að tilgreina hvort ummerkin væru vegna sela (bit/klór), neta, annarra ástæðna eða ef ekki var vitað hvernig ummerkin væru til komin. Niðurstöður benda til að selbit og önnur ummerki á veiddum fiskum séu fátíð. Samtals fyrir bæði árin voru skráð ummerki eftir sel á 78 laxfiskum sem samsvarar 0,61% af veiddum fiskum á tímabilinu sem rannsóknin stóð yfir. Árið 2009 voru 0,36% af veiddum löxum selbitnir eða klóraðir af sel, en enginn silungur. 2010 voru 0,92% af veiddum löxum með slík ummerki, en aðeins 0,07% af veiddum bleikjum og 0,04% af veiddum urriðum. 62,1% af selbitnum löxum voru stórlaxar (dvalið tvö ár í sjó; ?70cm). Frekari rannsókn á áhrifum landsela í árósum á laxfiska á þessu svæði er yfirstandandi.

Smellið hér til að lesa skýrsluna.

 

 

Hugmyndafundur fyrir íbúa Húnaþings vestra

Nú stendur yfir mótun framtíðarsýnar Selasetursins til næstu 5-10 ára. Við bjóðum íbúum Húnaþings vestra sem hafa góðar hugmyndir um starfsemi Selasetursins til hugmyndafundar mánudagskvöldið 10. mars kl 20 í Selasetrinu.

Við hvetjum alla sem hafa hugmyndir sem varða Selasetrið og vilja hafa áhrif á mótun framtíðarsýnar þess að kíkja við.

Léttar veitingar í boði.

 

Sérfræðingar Selaseturs á Landsýn

Landsýn – vísindaþing Landbúnaðarins var haldið á Hvanneyri 7. mars sl. Alls sóttu þingið um 140 manns og þótti það takast vel. Haldin voru 30 erindi í fjórum málstofum. Sérfræðingar Selasetursins þær Sandra Granquist og Leah Burns héldu báðar erindi á þinginu. Erindi Söndru fjallaði um áhrif ferðamanna á útbreiðslu og hegðun sela á Vatnsnesi en erindi Leuh fjallaði um Animals as Tourism Objects: Ethically refocusing the relationships between tourists and wildlife.

Hér má finna nánari upplýsingar um Landsýn.

Selasetrið ferðaskipuleggjandi

Selasetur Íslands hefur fengið Ferðaskipuleggjendaleyf frá Ferðamálastofu. Við erum afar stolt af því og munum nú taka virkari þátt í kynningu og sölu á þjónustu ferðaþjónustuaðila á svæðinu.