Sandra Granquist heldur erindi á ETOUR

Sandra Granquist sem stýrir líffræðirannsóknasviði Selasetursins hélt erindi í The European Tourism Research Institute (ETOUR) við Mid Sweden University í  Östersund í Svíþjóð á dögunum.  Erindið bar heitið “Balancing use and protection of wildlife – An interdisciplinary approach for biology and tourism research” og fjallaði um þverfaglegar rannsóknir sem Sandra hefur staðið fyrir á Selasetrinu ásamt Per-Åke Nilsson, fyrrum deildarstjóra ferðamálarannsóknasviðs Selasetursins. Rannsóknin fjallar um mikilvægi þess að samþætta niðurstöður vistfræðirannsókna og ferðamálarannsókna í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Söndru en í nóvember s.l. varði hún Licentate Thesis í tengslum við nám sitt við Stokkhólmsháskóla í Svíþjóð.

Ný upplýsingasíða opnuð

Á aðalfundi ferðamálafélags V-Húnavatnssýslu í gær var opnuð ný og glæsileg heimasíða svæðisins. Á síðunni er að finna margvíslegar upplýsingar fyrir ferðamenn, um afþreyingu, áhugaverða staði, gistingu, veitingar o.m.fl. Á síðunni er einnig að finna fréttaveitu með upplýsingum um það helsta markvert á svæðinu auk atburða á döfinni. Einnig er umfjöllun um fyrirtæki mánaðarins úr hópi fyrirtækja á svæðinu.

www.visithunathing.is

Opið hús í Selasetrinu

Opið hús verður í Selasetrinu n.k. laugardag, 16. nóvember kl 12-16.

Við það tilefni efnum við til rýmingarsölu og bjóðum allar vörur með myndarlegum afslætti áður en við lokum búðinni fyrir veturinn. Gott tækifæri til að gera góð kaup og jafnvel versla nokkrar jólagjafir. Vörur frá Cintamani, gjafavara frá Bility, JG design, vandaðar Íslandsbækur og margt
fleira. Lítið við og gerið góð kaup.

Frítt inn í safnið eins og ávallt fyrir heimamenn. Einnig verðum við með veglegt kaffihlaðborð á kr 1500,- pr mann (750,-  fyrir börn 6-12 ára).

Hlökkum til að sjá ykkur

Starfsfólk Selaseturs

 

 

 

 

 

 

 

Selatalningin mikla 2013

Niðurstöður úrSelatalningunni miklu 2013

Selatalningin mikla var haldin á vegum Selaseturs Íslands þann 21. júlí s.l. Talningin hefur farið fram árlega síðan árið 2007 og var þetta því sjötta talningin. Markmið talningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela í kringum Vatnsnes og Heggstaðanes, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands.

Selir voru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi  í Húnaþingi vestra,  samtals um 100km. 30 manns tóku þátt í talningunni og fóru talningarmenn gangandi, ríðandi eða á báti. Talningin byggir algjörlega á þátttöku sjálfboðaliða, en með þessu móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma.

Í ár sáust samtals 757 selir á svæðinu (aðallega landselur). Það eru aðeins fleiri selir en sást 2012, en þá voru talin 614 dýr. Hinsvegar hefur fjöldin árin þar á undan verið yfir 1000 dýr. Mikilvægt er að hafa í huga að þessar talningar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda þeirra sela sem dvelja á þessu svæði. Margir þættir hafa áhrif á fjölda sela sem liggja uppi í látrunum og veður er einn þeirra.

Athuga ber að tölurnar segja ekki til um ástand landsselsstofns í heild. Stofnstærðarmat á landsel fór síðast fram 2011 og hefur farið fram reglulega síðan árið 1980 og þá hefur verið talið um land allt úr flugvél. Niðurstöður þeirra talniga benda til þess að landselstofninn hafi staðið í stað síðan árið 2003 og sé tæplega 12 þúsund dýr.