Aðalfundur Selaseturs 2014

Aðalfundur Selaseturs Íslands var haldinn í Dæli í Víðidal 15. maí 2014. 

Fundarstjóri var Skúli Þórðarson.

Í stjórn voru kjörnir eftirtaldir:

Ársæll Daníelsson, Guðmundur Jóhannesson, Jóhannes Erlendsson, Kristín Jósefsdóttir og Katharina Ruppel. Varamenn eru Róbert Jack og Sigrún B. Valdimarsdóttir.

Á fundinum var samþykkt hlutafjáraukning á árinu 2014 og verður farið í það á komandi vikum og mánuðum að afla aukins hlutafjár til að efla starfsemi setursins enn frekar.

Niðurstöður rannsókna á ummerkjum eftir sel á laxfiskum

Á dögunum var birt skýrsla með niðurstöðum rannsóknar á ummerkjum eftir landsel á veiddum löxum og silungum. Ummerkin voru könnuð á axfiskum sem veiddir voru í Vatnsdalsá og Laxá á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, ásamt Víðidalsá, Gljúfurá og Miðfjarðará í Húnaþingi vestra árin 2009 og 2010. Veiðimenn í þessum ám voru beðnir að skrá öll ummerki sem sáust á veiddum fiskum, ásamt því að tilgreina hvort ummerkin væru vegna sela (bit/klór), neta, annarra ástæðna eða ef ekki var vitað hvernig ummerkin væru til komin. Niðurstöður benda til að selbit og önnur ummerki á veiddum fiskum séu fátíð. Samtals fyrir bæði árin voru skráð ummerki eftir sel á 78 laxfiskum sem samsvarar 0,61% af veiddum fiskum á tímabilinu sem rannsóknin stóð yfir. Árið 2009 voru 0,36% af veiddum löxum selbitnir eða klóraðir af sel, en enginn silungur. 2010 voru 0,92% af veiddum löxum með slík ummerki, en aðeins 0,07% af veiddum bleikjum og 0,04% af veiddum urriðum. 62,1% af selbitnum löxum voru stórlaxar (dvalið tvö ár í sjó; ?70cm). Frekari rannsókn á áhrifum landsela í árósum á laxfiska á þessu svæði er yfirstandandi.

Smellið hér til að lesa skýrsluna.

 

 

Hugmyndafundur fyrir íbúa Húnaþings vestra

Nú stendur yfir mótun framtíðarsýnar Selasetursins til næstu 5-10 ára. Við bjóðum íbúum Húnaþings vestra sem hafa góðar hugmyndir um starfsemi Selasetursins til hugmyndafundar mánudagskvöldið 10. mars kl 20 í Selasetrinu.

Við hvetjum alla sem hafa hugmyndir sem varða Selasetrið og vilja hafa áhrif á mótun framtíðarsýnar þess að kíkja við.

Léttar veitingar í boði.

 

Sérfræðingar Selaseturs á Landsýn

Landsýn – vísindaþing Landbúnaðarins var haldið á Hvanneyri 7. mars sl. Alls sóttu þingið um 140 manns og þótti það takast vel. Haldin voru 30 erindi í fjórum málstofum. Sérfræðingar Selasetursins þær Sandra Granquist og Leah Burns héldu báðar erindi á þinginu. Erindi Söndru fjallaði um áhrif ferðamanna á útbreiðslu og hegðun sela á Vatnsnesi en erindi Leuh fjallaði um Animals as Tourism Objects: Ethically refocusing the relationships between tourists and wildlife.

Hér má finna nánari upplýsingar um Landsýn.