Styrkur frá sænsku Vísindaakademíunni

Sandra Granquist, sameignlegur starfsmaður Selasetur Íslands og Veiðimálastofnunnar og deildarstjóri hjá Selasetri íslands, hlaut á dögunum styrk frá Kunglina Vetenskaps Akademien (the Royal Swedish Academy of Science) í Svíþjóð til áframhaldandi rannsókna á fæðuval landsela. Markmið verkefnis sem styrkt var er að áætla mikilvægi laxfiska í fæðu landsela með því að nota stöðugar samsætur (stable isotopes). Sú rannsóknaraðferð hefur m.a. nýtist vel innan fornleifafræðarinnar. Greining á stöðugum samsætum getur gefið vísbendingar um hvar í fæðukeðjunni landselurinn er staðsettur miðað við aðrar sjávartegundir, ásamt því að gefa vísbendingar um hlutfall fæðu selanna sem kemur úr ferskvatni og sjó.

Sandra Granquist

Áhrif selaskoðunar á útbreiðslu og hegðun landsela

Nýlega birtust tvær vísindagreinar í alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum. Fyrsti höfundur beggja greinanna er Sandra M. Granquist, deildarstjóri líffræðirannsóknasviðs Selasetursins og er þar greint frá rannsóknum sem hún stýrir á  samspili landsela og ferðamanna á Vatnsnesi á Norðurlandi vestra.

Náttúrutengd ferðaþjónusta er ört vaxandi grein innan ferðamálaiðnaðarins. Mikilvægt er að stuðla að jafnvægi á milli náttúruverndunnar og rétts ferðamanna og hagsmunaaðila til að nýta náttúruna sem auðlind. Fyrsta greinin, sem heitir The effect of land based seal watching tourism on the haul-out behaviour of harbour seals (Phoca vitulina) in Iceland birtist í Applied Animal Behaviour Science og er meðhöfundur Söndru þar Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Í rannsókn þeirra var áhrif selskoðunar á hegðun og útbreiðslu landsela könnuð. Hegðun ferðamanna á meðan á selaskoðun stendur var einnig könnuð. Niðurstöður sýna að truflun vegna viðveru ferðamanna leiddi af sér aukna árvekni sela og hafði áhrif á útbreiðslu þeirra. Í ljós kom einnig að hegðun ferðamanna skiptir máli og hægt er að draga úr truflun sem selurinn verður fyrir ef ferðamenn haga sér rólega á selskoðunarstaðnum. Gerð ferðamannahópa (stakir ferðamenn, pör, fjölskyldur og hópar) hafði áhrif á hegðun, en stakir ferðamenn og pör voru rólegri heldur en fjölskyldur og hópar. Í greininni er lagt til að hægt sé að lágmarka áhrif ferðamennsku með notkun hegðunarreglna (sk. Code of conducts), þar sem æskileg hegðun í návíst villtra dýra sé útskýrð. Greinina má finna hér: http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0168159114001075

Erfiðleikar við yfirfærslu kunnáttu frá akademíu til ferðamannaiðnaðar, ásamt skorti á þverfaglegu samstafi þegar kemur að því stjórna náttúrutengdri ferðaþjónustu, gæti haft óbein truflandi áhrif á villt dýr. Í vísindagrein sem birtist í lok síðasta árs í vísindaritinu Journal for Cleaner Production, sem heitir Who´s watching who? -An interdisciplinary approach to studying seal watching tourism in Icelander fjallað um samstarf á milli líffræðinga og ferðamálafræðinga, ávinninginn af þverfaglegum rannsóknum og mikilvægi þess að taka tillit til rannsóknarniðurstaðna beggja greinanna þegar kemur að stjórn á ferðamennsku tengdri villtum dýrum. Aðferð er kynnt, þar sem hagnýting og vörn villtrar náttúru skipar jafn mikilvægan sess, þegar markmiðið er að skapa sjálfbært samspil á milli ferðamannaiðnaðar og villtrar náttúru. Meðhöfundur Söndru er Per-Åke Nilsson sem starfar við Mitt Universitetet í Östersund, Svíþjóð. Greinina má finna hér:  http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0959652614012645

Selasetrið í kynnisferð í Danmörku

Undanfarna daga hafa starfsmenn Selasetursins verið á ferð í Danmörku til að kynna sér þarlend söfn og setur. Heimsókninn er liður í verkefninu Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðþjónustu í Húnaþingi vestra sem styrkt er af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.

Þeir staðir sem heimsóttir voru eru eftirfarandi:

Den Blaa Planet – www.denblaaplanet.dk – afar glæsileg og glæný sýning um lífríki hafsins. Sérstök áhersla á hafotra. Staðsett í Kaupmannahöfn.
Fiskeri og Söfartmuseet – www.fimus.dk – gamalgróið sjóminja og sædýrasafn í Esbjerg. Stofnað 1968.
Nordsoenoceanarium – www.nordsoenoceanarium.dk – eitt glæsilegasta safn af þessum toga í Danmörku. Staðsett í Hirtshals.
Maritime Museum of Danmark – www.mfs.dk – nýtt og glæsilegt safn um hina ríku siglingahefð Dana. Safnið er tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2015. Staðsett í Helsingör.
Náttúrugripasafnið í Kaupmannahöfn – www.zoologie.snm.ku.dk 
Þjóðminjasafn Danmerkur – www.natmus.dk 

Starfsfólk Selasetursins kemur heim hlaðið hugmyndum sem nýttar verða í áframhaldandi vinnu við framtíðarskipulag sýningar Selasetursins. Á nýju ári er fyrirhugað að fara í samskonar ferð til Skotlands.

Vaxtarsamningi Norðurlands vestra er þakkaður stuðningur við verkefnið.

Selasetrið í kynnisferð í Skotlandi

Um miðjan janúar fóru starfsmenn Selaseturs í stutta kynnisferð til Skotland þar sem þeir kynntu sér þarlend söfn og setur. Heimsókninn er liður í verkefninu Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðþjónustu í Húnaþingi vestra sem styrkt er af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Í tenglsum við það verkefni var farið í sambærilega kynnisferð til Danmerkur í desember. 

Þeir staðir sem heimsóttir voru eru eftirfarandi:

Scottish Seabird Center – www.seabird.org – sýning sem fjallar um sjófugla í tenglsum við eyjar stutt frá landi. Þar er m.a. að finna myndavélar sem hægt er að fjarstýra til að skoða fuglabjörg. Einnig er boðið upp á ferðir til fuglaskoðunar.

Scottish Sealife sanctuary https://www.visitsealife.com/oban/ – setur þar sem selskópum sem villst hafa undan eða eru slasaðir er hjúkrað og svo sleppt. Einnig er þar laug með lifandi selum, ýmiskonar fiskar og sjávardýr, skjaldbökubjörgunarstöð sem og otrar.

Hebridean Whale & Dolphin Trust – http://www.whaledolphintrust.com/ – rannsóknarsetur á eyjunni Mull við vesturströnd Skotlands. Einbeita sér að rannsóknum á hval og höfrungum. 

Einnig var haft samband við fleiri aðila, svo sem WDC Scottish Dolphin Centre sem og Newbold house, gistiheimili sem sérhæfir sig í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Ekki gafst tími til að sækja þá aðila heim. Fundað var með fulltrúa frá Háskólanum í Fort William um hugsanlegt samstarf.

Starfsfólk Selasetursins kemur heim hlaðið hugmyndum sem nýttar verða í áframhaldandi vinnu við framtíðarskipulag sýningar Selasetursins. 

Fyrsta hluta verkefnisins Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðþjónustu í Húnaþingi vestra sem náði yfir öflun hugmynda er nú lokið. Við tekur úrvinnsla úr hugmyndum sem og hönnun á framtíðarútliti Selasetursins sem og ásýnd nánasta umhverfis þess á hafnarsvæðinu á Hvammstanga.

Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið fyrir sumarið og hægt verði að sýna afraksturinn á sýningu Selasetursins í sumar, á 10 ára afmælisári þess.

Vaxtarsamningi Norðurlands vestra er þakkaður stuðningur við verkefnið.