Áhugavert námskeið

Ferðamálasamtök Norðurlands vestra standa fyrir námskeiði fyrir ferðaþjónustuaðila og áhugafólk um fuglaskoðun. Námskeiðið er sett upp sem hluti af þróun Fuglastígs á Norðurlandi vestra en í sumar mun koma út fyrsta fuglaskoðunarkortið yfir svæðið á vegum samtakanna.

Á námskeiðinu verður fjallað um vöruþróun á náttúrutengdri ferðaþjónustu með áherslu á góða umgengni gagnvart náttúru og samfélagi og fjárhagslegan hagnað fyrirtækis eða samfélags.

Farið verður í eftirfarandi efnisþætti og þeir ræddir í samhengi við þróun fuglaskoðunarstígs á Norðurlandi vestra.

  1. Hvað einkennir ferðamenn sem koma til   fuglaskoðunar?
  2. Hvaða innviðir eru nauðsynlegir til að taka á móti slíkum ferðamanni?
  3. Hvaða þjónustu vilja/þurfa þeir sem sækjast eftir því að skoða fugla?
  4. Hvaða þekkingu þarf ég/ferðaþjónustuaðili að búa yfir?
  5. Hvaða skyldur hef ég sem býð upp á fuglaskoðunarstíg/-stað gagnvart bæði náttúru og samfélagi?
  6. Náttúrutúlkun og leiðsögn – leiðir til að tengja ferðamanninn við náttúruna.
  7. Gerð ferðavörunnar – hvað þarf til að ná á ferðamanninn?
  8. Samvinna fyrirtækja – mikivægi þess að efla sitt tengslanet til að styrkja sitt fyrirtæki.

Kennari á námskeiði: Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeild Hólaskóla, umhverfisfræðingur og menntaður leiðsögumaður.

Námskeiðið fer fram á Hótel Blönduósi, þriðjudaginn 21. apríl kl. 10.00 til 16.00. Léttur hádegisverður og kaffi innifalið.  Verð kr 5000.-

 Skráning á netfangið selasetur@selasetur.is eða í síma 451 2345.

Skráning þarf að hafa borist í síðasta lagi kl 12 mánudaginn 20. apríl.

 

Aukinn opnunartími á Selasetrinu

Vegna stóraukinnar aðsóknar aukum við opnunartíma í apríl.

Nú er opið á Selasetrinu þriðjudaga til laugardags kl 12-15.

Þess utan er hópum velkomið að hafa samband í síma 451 2345.

Opnunartíma í sumar er að finna hér.

Selasetur Íslands

Selasetur Íslands á Hvammstanga

Heimsókn frá Vín


Við á Selasetrinu fengum góða heimsókn á dögunum. Prófessor Andreas Muhar frá Institute of Landscape Development, Recreation and Conservation Planning við BOKU Háskólann í Vín kom við  og kynnti sér starfsemi setursins. Meðal annars fór prófessor Andreas í selaskoðun á Illugastöðum í frábæru veðri í fylgd með deildarstjóra ferðamálarannsóknadeildar Seleasetursins, Dr Leah Burns.

 

 

“Vísindi og grautur”

Háskólinn á Hólum býður reglulega upp á opna fyrirlestra með hinum ýmsu fræðimönnum undir heitinu Vísindi og grautur. 19. mars hélt Sandra Granquist deildarstjóri líffræðirannsóknasviðs Selasetursins fyrirlestur í þessari áhugaverðu fyrirlestraröð sem bar yfirskriftina Þverfaglegar rannsóknir á náttúrulífsferðamennsku: Jafnvægi verndunar íslenskra sela og hagnýtingar þeirra við selaskoðun.

 

Sandra Granquist