Ráðstefnan Nordic Symposium

 24. ráðstefnan sem kallast Nordic Symposium in Tourism and Hospitality var haldin í Reykjavík 1.-3. október.

Dr Leah Burns, deildarstjóri ferðamálarannsóknasviðs Selaseturs Íslands, var í skipulagsnefnd ráðstefnunnar. Dr Burns hélt fyrirlestur ásamt Söndru Granquist, deildarstjóra líffræðirannsóknasviðs, sem kallaðist “Responsibly Engaging with Animals in Tourism”.

Báðar kynntu þær ritverk. Titlarnir voru:

 1. Codes of conduct for seal watching: An investigation of guidelines for human behaviour 

Höfundar: Elin Lilja Öqvist, Sandra Granquist, Georgette Leah Burns og Anders Angerbjörn 

 2. Interpretation in wildlife tourism: Assessing the effectiveness of signage to modify visitor behaviour at a seal watching site in Iceland 

Höfundar: Sarah Marschall, Sandra Granquist og Georgette Leah Burns

Opnunartímar

 

Gestakomur meira en tvöfölduðust í október, og þess vegna verðum við með opið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, frá 12 til 15, í nóvember.

Utan þessra tíma er opið samkvæmt samkomulagi.

Meistaranemar á Selasetrinu

Tveir meistaranemar vinna nú meistaraverkefni sín á Selasetri Íslands.

Georgia Clack er meistaranemi í strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði og vinnur meistaraverkefnið sitt hjá Selasetri Íslands. Markmið rannsóknarverkefnis hennar er tvennskonar. Í fyrsta lagi er hún að rannsaka útbreiðslu landsela á Íslandi og gera forkönnun á nýjum aðferðum til að draga úr kostnað við selatalningar. Í öðru lagi er hún að rannsaka áhrif selskoðunarbáts á hegðun landsela. Leiðbeinandi hennar er Sandra Granquist.

Elin Lilja Öqvist er meistaranemi í vistfræði við Stokkhólmsháskóla og vinnur meistaraverkefnið sitt hjá Selasetrinu. Rannsóknarverkefni hennar snýst um sjávarspendýr og er hún m.a. að gera skoðanakönnun meðal ferðamanna sem fara í selaskoðunarsferðir frá Hvammstanga og hvalaskoðunarferðir frá Húsavík varðandi viðhorf þeirra gagnvart velferð villtra dýra. Leiðbeinandi hennar er Sandra Granquist.

Georgia Clack

Georgia Clack

Þátttaka í ráðstefnu í Stokkhólmi

Sandra Granquist, selasérfræðingur og deildarstjóri selarannsóknarsviðs Selasetursins fór á dögunum á ráðstefnuna European Congress of Mammalogy sem haldin var í Stokkhólmi. Á ráðstefnunni var fjallað um líffræðirannsóknir á spendýrum um allan heim og kynnti Sandra verkefni sem unnið var í samstarfi Selaseturs Íslands, Stockholms háskóla, Hólaskóla og Veiðimálastofnunnar. Í rannsókninni sem kynnt var, voru hegðunarreglur sem hafa verið hannaðar til notkunar fyrir ferðamenn við selaskoðun í náttúrunni kannaðar á heimsvísu. Hluta rannsóknarinnar vann Elin Lilja Öqvist sem lokaverkefni til Bs gráðu í líffræði við Stokkhólmsháskóla og var Sandra Granquist leiðbeinandi hennar. Meðhöfundar kynningarinnar voru Georgette Leah Burns, deildarstjóri ferðamannarannsókna hjá Selasetrinu og deildarstjóri á Hólum ásamt Anders Angerbjörn, prófessor hjá Stokkhólmsháskóla.

Sandra Granquist

Sandra Granquist

Nýr framkvæmdastjóri Selaseturs

Í byrjun sumars sagði framkvæmdastjóri Selasetursins, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, starfi sínu lausu. Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og mun Sigurður Líndal Þórisson taka til starfa þann 1. október. Unnur mun gegna starfi framkvæmdastjóra þangað til. 

Sigurður  er frá Lækjamóti í Víðidal, en hefur búið í Lundúnum í 20 ár. Síðastliðin 4 ár hefur hann verið í stjórnunarstöðu hjá Expedia, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims. Þar leiddi hann m.a. farsællega til lykta flókið verkefni sem unnið var á 20 tungumálum, í 3 heimsálfum, og kostaði rúman milljarð króna.

Sigurður er með leikarapróf frá Arts Educational London School of Drama; M.A. gráðu í listastefnu og -stjórnun frá Birkbeck College, University of London; og kennsluréttindi frá Strode’s College.

Sigurður hefur leikstýrt á sjötta tug leikverka, og kenndi við suma virtustu leiklistarskóla Bretlandseyja í meira en áratug, auk þess að vera aðstoðarleikhússtjóri Tabard leikhússins í Lundúnum í 3 ár. 

Sigurður er giftur Gretu Clough, brúðulistamanni og leikara frá Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Þau eiga ársgamla dóttur, Elínu Rannveigu Líndal.

Stjórn Selasetursins býður Sigurð velkominn til starfa. Stjórnin vill jafnframt þakka Unni Valborgu fyrir það góða starf sem hún hefur innt af hendi þau tvö ár sem hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri Selasetursins og óska henni velfarnaðar í komandi verkefnum. 

Sigurður Líndal Þórisson