Nýtt stofnstærðarmat á landsel

Mynd: Sandra M. Granquist

Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands, hefur lokið vinnu við mat á stærð landselsstofnsins við Ísland, byggt á talningum sem fram fóru sumarið 2018. Skýrslu um verkefnið má nálgast hér.  Landselsstofninn er metinn vera um 9400 dýr.  Frá árinu 1980 hafa reglubundnar talningar farið fram til að meta stofnstærð og breytingar í stofnþróun tegundarinnar við Ísland. Stofninn er nú metinn vera 72% minni en árið 1980, en 23% stærri en árið 2016 þegar sambærilegt stofnstærðarmat var síðast unnið. Mesta fækkunin í stofninum átti sér stað frá árinu 1980 til ársins 1989 og benda niðurstöður undanfarinna ára til að stærð stofnsins sveiflist nú nálægt sögulegu lágmarki.  Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir landsel við Ísland skal lágmarks stofnstærð vera 12.000 selir. Niðurstöður stofnmatsins gefa til kynna að fjöldinn sé nú um 21% minni.  Mikilvægt er því að gripa til aðgerða til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett.

Hafrannsóknastofnun leggur í ráðgjöf sinni til að sett verði bann við beinum veiðum á landsel.  Stofnunin leggur einnig til að leitað verði leiða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar.  Verði takmarkaðar beinar veiðar leyfðar er mikilvægt að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt og skráningar á öllum veiðum verði lögbundnar.  Jafnframt leggur stofnunin til að reynt verði að takmarka möguleg truflandi áhrif af athöfnum manna á landsel, sérstaklega í maí-ágúst þegar kæping og háraskipti eiga sér stað.  Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar má nálgast hér.

Áhugaverður fyrirlestur um nýtt verkefni

Við vekjum athygli á áhugaverðum fyrirlestri meistaranema, Cécile Chauvat, á Selasetrinu á morgun, 28. júní. Cécile, sem stundar nám við Háskólasetur Vestfjarða, ætlar að halda fyrirlestur um viðhorf ferðamanna til visthvolfs.

Nýr starfsmaður kominn til starfa

Einar Ó. Þorleifsson náttúrufræðingur hefur tekið til starfa hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. Hann er menntaður í landfræði frá Háskóla Íslands með sérgreinar í líffræði og jarðfræði. Einar hefur lagt stund á fuglarannsóknir til margra ára. Helstu sérgreinar hanns eru votlendislífríki og votlendisfuglar. Einar hefur einnig fengist við rannsóknir á útbreiðslu fugla, sérstaklega þær fuglategundir sem hafa numið land á Íslandi á tuttugustu öld og fram til dagsins í dag.

Einar mun vinna að ýmsum náttúrurannsóknum aðallega á sviði fuglafræði á því víðfema svæði sem náttúrustofan sinnir. Hann hefur aðsetur við Selasetrið á Hvammstanga.

Áhugasömum sem hafa upplýsingar um áhugaverða fugla, t.d. nýja varpstaði eða fundarstaði plantna eða sérstök jarðfræðifyrirbrigði er velkomið að leita til hans um frekari upplýsingar.

Húnaklúbburinn fær heimsókn frá Svíþjóð

Einn af helstu samstarfsaðilum Háskólans á Hólum er Selasetur Íslands á Hvammstanga. Jessica Aquino, lektor við Ferðamáladeild, starfar við báðar stofnanirnar og leiðir þær rannsóknir Selasetursins sem lúta að ferðamennsku.

Meðal verkefna Jessica við Selasetrið er að leiða Húnaklúbbínn. Klúbburinn hefur þann megintilgang að efla þekkingu og virðingu ungmenna fyrir náttúrunni. Um klúbbinn, tilurð hans og markmið, má nánar lesa hér á vef Selasetursins.

Á enska hluta Hólavefsins er í dag sagt frá heimsókn sænskra unglinga til Húnaklúbbsins. Verkefni þetta hlaut styrk úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins, og er þar flokkað sem Good Practice Example.