Heimsókn matvælaráðherra

Selasetur Ísland fékk á dögunum góðan gest þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra sótti setrið heim. Heimsóknin var liður í vinnuferð ráðherra þar sem hún heimsótti m.a. starfsstöðvar Hafrannsóknastofnunnar á landsbyggðinni.

Selasetrið og Hafrannsóknastofnun hafa um árabil unnið mikið saman að selarannsóknum við Ísland en þeim er að mestu sinnt hér á Hvammstanga. Það var bæði gott og gagnlegt að ræða samstarfið, hlutverk Selasetursins og stöðu selastofnsins við ráðherra.

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var á sjaldséðum sólardegi, má sjá ráðherra ásamt Gunnlaugi Ragnarssyni stjórnarformanni Selasetursins, Örvari B. Eiríkssyni framkvæmdastjóri, Hafþóri Magnúsi Kristinssyni starfsmanni og Söndru M. Granquist dýraatferlis- og vistfræðingi.

Nýtt stofnmat á íslenska útselnum

Búið er að birta niðurstöður talninga á útsel við Ísland haustið 2022 og má lesa um niðurstöðurnar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunnar. Í stuttu máli þá fjölgaði í stofninum um 6,8% en það telst ekki marktæk fjölgun og stendur stofninn því í stað. Telst íslenski útselsstofninn því áfram í áhættuflokknum „í nokkurri hættu“ (e. vulnerable).

Sjá nánar:
https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/stofnmat-a-utsel-vid-island

Selatalningin mikla helgina 27. – 28. júlí

Nánari upplýsingar

Helgina 27.-28. júlí verður Selatalningin mikla haldin á vegum Selaseturs Íslands á Hvammstanga. Við hvetjum alla til að taka þátt, hvort sem þú ert heimamaður, landeigandi eða ferðamaður á ferð þinni um landið. Strandlengjunni er skipt í mörg svæði þannig að allir ættu að geta fundið sér vegalengd sem hentar. Með þátttöku gefst fólki kostur á að skoða seli í sínu náttúrulega umhverfi.

Hægt er að skrá sig með því að senda póst á selasetur@selasetur.is fyrir kl. 18:00 föstudaginn 26. júlí.

Dagskrá:

Laugardaginn 27. júlí kl. 17:00-18:00 er afhending gagna, kynning og þjálfun á Selasetrinu.

Sunnudaginn 28. júlí kl. 08:00-12:00 fer sjálf selatalningin fram því það er háfjara um kl. 10:00. Talningargögnum er skilað á Selasetrið þegar talningu er lokið. Kaffiveitingar og smá glaðingur að lokinni talningu.

Upplýsingar fyrir þátttakendur á vettvangi

Það er mikilvægt að telja einungis seli sem eru á þínu svæði svo að hver selur sé aðeins talinn einu sinni.

Þú skráir niður alla seli sem þú sérð, hvort sem það er á landi, skeri eða í sjó, auk tímasetningar. Ef hægt er að greina á milli Landssels og Útsels, þá vinsamlegast skráið það líka.

Það er mikilvægt að muna að ekki allir sjá seli en það eru jafn mikilvægar upplýsingar.

Vinsamlega gangið hljóðlega um því hávaði getur fælt selina áður en þú getur talið þá. Vinsamlegast takið ekki með hund af sömu ástæðu.

Vinsamlegast gangið vel um svæðin, gangið ekki yfir ræktuð svæði, virðið girðingar/hlið, ónáðið ekki dýrin og leggið bílum á öruggum stöðum.

Það er gott að hafa sjónauka með í för en það er ekki nauðsynlegt til þátttöku. Selasetrið á nokkra sjónauka og það er möguleiki að fá lánaðan sjónauka meðan birgðir endast.

——-

Markmið með selatalningunni er að styðja við frekari rannsóknir, með því að afla þekkingar á fjölda sela á þessum slóðum og þróa áfram sjálfbæra ferðamennsku í skoðun villtra dýra.

Talningin felst í því að telja seli á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, en svæðinu verður skipt upp í mörg misstór svæði (um 2-7km löng) og ættu allir finna allir vegalengd við sitt hæfi. Selatalningin mikla er skemmtileg upplifun og það er vel þess virði að koma og taka þátt í rannsóknarstörfum Setursins.

Til upplýsinga

Hér er slóð á almennar upplýsingar um selatalninguna miklu frá því árið 2007-2021 á wikipedia. https://Selatalningin_mikla

Þriðja málþing Selasetursins

Þann 17. maí heldur Selasetur Ísland sitt þriðja málþing í húsnæði sínu að Strandgötu 1. Margir áhugaverðir fyrirlestrar um hin ýmsu viðfangsefni.

Málþingið fer fram á ensku. Það er öllum opið og aðgangur ókeypis.