Landsýn – vísindaþing Landbúnaðarins var haldið á Hvanneyri 7. mars sl. Alls sóttu þingið um 140 manns og þótti það takast vel. Haldin voru 30 erindi í fjórum málstofum. Sérfræðingar Selasetursins þær Sandra Granquist og Leah Burns héldu báðar erindi á þinginu. Erindi Söndru fjallaði um áhrif ferðamanna á útbreiðslu og hegðun sela á Vatnsnesi en erindi Leuh fjallaði um Animals as Tourism Objects: Ethically refocusing the relationships between tourists and wildlife.
Selasetrið ferðaskipuleggjandi
Selasetur Íslands hefur fengið Ferðaskipuleggjendaleyf frá Ferðamálastofu. Við erum afar stolt af því og munum nú taka virkari þátt í kynningu og sölu á þjónustu ferðaþjónustuaðila á svæðinu.
Góðir gestir í Selasetrinu
3. og 4. bekkir Grunnskóla Húnaþings vestra komu í heimsókn í Selasetrið í morgun í tengslum við verkefnið Menningarlegt gildi sela. Verkefnið er samstarfsverkefni Selasetursins og Grunnskólans og er stutt af Menningarráði Norðurlands vestra.
Krakkarnir fengu fræðslu um seli og menningarlegt gildi þeirra og skoðuðu safnið í krók og kima. Þau munu svo halda áfram að fræðast um seli þegar í skólann er komið, vinna úr upplýsingunum og semja brúðuleikrit.
Fátt er skemmtilegra að fá í heimsókn líflega og skemmtilega krakka eins og þennan hóp sem var skólanum sínum til sóma.
Takk fyrir komuna krakkar og verið velkomin aftur!
Kvikmyndataka í Selasetrinu
Nú stendur yfir kvikmyndataka í Selasetrinu. Verið er að taka upp stuttmyndina “Sealskin” sem er byggð á þjóðsögunni um selshaminn. Sú sem gerir myndina er Shilpa Munikempanna. Hún lærði kvikmyndagerð við London Film Academy. Myndir hennar snúast um sögur af persónulegum feralögum einstaklinga sem fastir eru í ákveðnum aðstæðum og reyna að takast á við aðstæðurnar eftir fremsta megni. Frumraun hennar í stuttmyndagerð ‘Kaveri’ eða ‘Svefn’ sem hún skrifaði og leikstýrði hefur verið sýnd á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða. Hún dvelur nú í listamiðstöðinni Nes á Skagaströnd.
Selasetrið á Oikos 2014
Nú stendur yfir ráðstefnan Oikos 2014 í Stokkhólmi, Svíþjóð. Þar koma saman helstu sérfræðingar Skandinavíu á sviði vistfræði. Sandra Granquist sviðsstjóri líffræðirannsóknasviðs Selaseturs kynnir á ráðstefnunni niðurstöður sínar á áhrifum ferðamanna á Seli sem unnar voru á Vatnsnesi.