Selasetrið í kynnisferð í Skotlandi

Um miðjan janúar fóru starfsmenn Selaseturs í stutta kynnisferð til Skotland þar sem þeir kynntu sér þarlend söfn og setur. Heimsókninn er liður í verkefninu Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðþjónustu í Húnaþingi vestra sem styrkt er af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Í tenglsum við það verkefni var farið í sambærilega kynnisferð til Danmerkur í desember. 

Þeir staðir sem heimsóttir voru eru eftirfarandi:

Scottish Seabird Center – www.seabird.org – sýning sem fjallar um sjófugla í tenglsum við eyjar stutt frá landi. Þar er m.a. að finna myndavélar sem hægt er að fjarstýra til að skoða fuglabjörg. Einnig er boðið upp á ferðir til fuglaskoðunar.

Scottish Sealife sanctuary https://www.visitsealife.com/oban/ – setur þar sem selskópum sem villst hafa undan eða eru slasaðir er hjúkrað og svo sleppt. Einnig er þar laug með lifandi selum, ýmiskonar fiskar og sjávardýr, skjaldbökubjörgunarstöð sem og otrar.

Hebridean Whale & Dolphin Trust – http://www.whaledolphintrust.com/ – rannsóknarsetur á eyjunni Mull við vesturströnd Skotlands. Einbeita sér að rannsóknum á hval og höfrungum. 

Einnig var haft samband við fleiri aðila, svo sem WDC Scottish Dolphin Centre sem og Newbold house, gistiheimili sem sérhæfir sig í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Ekki gafst tími til að sækja þá aðila heim. Fundað var með fulltrúa frá Háskólanum í Fort William um hugsanlegt samstarf.

Starfsfólk Selasetursins kemur heim hlaðið hugmyndum sem nýttar verða í áframhaldandi vinnu við framtíðarskipulag sýningar Selasetursins. 

Fyrsta hluta verkefnisins Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðþjónustu í Húnaþingi vestra sem náði yfir öflun hugmynda er nú lokið. Við tekur úrvinnsla úr hugmyndum sem og hönnun á framtíðarútliti Selasetursins sem og ásýnd nánasta umhverfis þess á hafnarsvæðinu á Hvammstanga.

Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið fyrir sumarið og hægt verði að sýna afraksturinn á sýningu Selasetursins í sumar, á 10 ára afmælisári þess.

Vaxtarsamningi Norðurlands vestra er þakkaður stuðningur við verkefnið.