Selatalningar úr lofti

Sérfræðingar Selasetursins vinna nú að selatalningu úr lofti. Slíkar talningar fóru síðast fram árið 2011. Þá var talið um allt land. Ekki fékkst fjárveiting til talninga um allt land í ár og því ekki hægt að byggja stofnstærðarmat á þeim gögnum sem safnast í ár. Talningin í ár mun þó gefa visbendingar um fjölda landsela í helstu látrum landsins.
 
Markmið talningarinnar í ár er að prófa nýja aðferð sem í framtíðinni má ef til vil nota við stofnstærðaráætlanir.  Fram til þessa hefur aðeins verið talið úr flugvél en í ár eru gerðar tilraunir með talningar með aðstoð ómannaðs loftfars og úr þyrlu til viðbótar við hefðbundnar talningar úr flugvél.  Ætlunin er að bera saman þessar þrjár talningaraðferðir.
 
Þau svæði sem talið er á í ár eru: Akraós, Löngufjörur, Heggstaðanes, Hvammsfjörður, Vatnsnes, Strandir, Ísafjarðardjúp, Rauðisandur, Arnarfjörður og Suðurland.
 
Verkefnisstjóri verkefnisins er Sandra Granquist, meðverkefnisstjóri er Erlingur Hauksson.
 
Tryggvi Stefánsson serfræðingur hjá Svarma með ómannaða loftfarið sem notað er við talningarnar.
 
Erlingur Hauksson meðverkefnisstjóri og Sandra Granquist verkefnisstjóri
 
Sellátur úr lofti

Meistaranemi á Selasetrinu

Sérfræðingar Selaseturs frá oft beiðnir um að leiðbeina nemendum við gerð lokaverkefna. Þessa dagana er Sarah Marschall, meistaranemi frá Háskólasetri Vestfjarða að vinna verkefni undir leiðsögn Söndru Granquist deildarstjóra líffræðirannsóknasviðs og Leah Burns deildarstjóra ferðamálarannsóknasviðs. Verkefni Söruh nær yfir hvernig best er að koma skilaboðum til ferðamanna varðandi hvernig á að haga sér í kringum villt dýr, til að lágmarka neikvæð áhrif.

Sarah Marschall (tv) ásamt Valerie sjálfboðaliða á Selasetrinu en hún aðstoðar Söruh í ágúst við vinnu á vettvangi.

Sjálfboðaliðar á Selasetrinu í sumar

Á Selasetrinu hafa í sumar starfað hjá okkur tveir sjálfboðaliðar, annar dýralæknir frá Þýskalandi og hinn dýralæknanemi frá Frakklandi. Þær hafa aðallega aðstoðað Söndru Granquist, deildarstjóra líffræðirannsóknasviðs, á rannsóknarstofu Selasetursins við að undirbúa sýni o.fl. Það er ómetanlegt fyrir starfsemi Selasetursins að hafa tæifæri til að fá sjálfboðaliða til starfa og færum við þeim bestu þakkir fyrir.

Valerie Scoll dýralæknanemi frá Frakklandi að störfum á
rannsóknarstofu Selasetursins.

Fuglastígur á Norðurlandi vestra

Undanfarnar vikur hefur Selasetrið leitt verkefni um gerð fuglastígs á Norðurlandi vestra fyrir hönd Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur var ráðin til verksins og hefur frá því í byrjun júní skoðað vænlega fuglaskoðunarstaði í landshlutanum og kortlagt tegundir á hverjum stað. Verki hennar er við það að ljúka og í framhaldinu mun verða gert kort af stöðunum ásamt því að sett verður upp heimasíða fyrir stíginn. Verkefnið er liður í eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu á svæðinu.

Ellen Magnúsdóttir

Verkefnið er styrkt af: