Á dögunum var umfjöllun um rannsóknir sérfræðinga Selasetrursins í Morgunblaðinu.
Sjálfboðaliðar á Selasetrinu í sumar
Á Selasetrinu hafa í sumar starfað hjá okkur tveir sjálfboðaliðar, annar dýralæknir frá Þýskalandi og hinn dýralæknanemi frá Frakklandi. Þær hafa aðallega aðstoðað Söndru Granquist, deildarstjóra líffræðirannsóknasviðs, á rannsóknarstofu Selasetursins við að undirbúa sýni o.fl. Það er ómetanlegt fyrir starfsemi Selasetursins að hafa tæifæri til að fá sjálfboðaliða til starfa og færum við þeim bestu þakkir fyrir.
Valerie Scoll dýralæknanemi frá Frakklandi að störfum á
rannsóknarstofu Selasetursins.
Fuglastígur á Norðurlandi vestra
Undanfarnar vikur hefur Selasetrið leitt verkefni um gerð fuglastígs á Norðurlandi vestra fyrir hönd Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur var ráðin til verksins og hefur frá því í byrjun júní skoðað vænlega fuglaskoðunarstaði í landshlutanum og kortlagt tegundir á hverjum stað. Verki hennar er við það að ljúka og í framhaldinu mun verða gert kort af stöðunum ásamt því að sett verður upp heimasíða fyrir stíginn. Verkefnið er liður í eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu á svæðinu.
Ellen Magnúsdóttir
Verkefnið er styrkt af:
Niðurstöður Selatalningarinnar miklu 2014
Selatalningin mikla var haldin á vegum Selaseturs Íslands þann 27. júlí s.l. Talningin hefur farið fram árlega síðan árið 2007 og var þetta því í áttunda sinn sem hún fer fram. Markmið talningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands.
Selir voru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í Húnaþingi vestra, samtals um 100km. Sjálfboðaliðar aðstoðuðu sérfræðinga Selasetursins við talninguna. Með því móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma. Í ár tóku yfir 30 manns þátt í talningunni og voru það bæði erlendir og íslenskir ferðamenn á leið um landið. Sumir bændur töldu sjálfir í sínu landi og selaskoðunarbáturinn Brimill sem gerir út frá Hvammstanga, aðstoðaði einnig við talninguna.
Í ár sáust samtals 706 selir á svæðinu (aðallega landselur). Það eru aðeins færri selir en sáust 2013, en þá voru talin 757 dýr. Árið 2012 voru talin 614 dýr, en fjöldin árin þar á undan hefur verið yfir 1000 dýr. Mikilvægt er að hafa í huga að þessar talningar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda þeirra sela sem dvelja á þessu svæði. Margir þættir hafa áhrif á fjölda sela sem liggja uppi í látrunum hverju sinni og er veður einn þeirra.
Athuga ber að tölurnar segja ekki til um ástand landsselsstofnsins í heild. Seinna í sumar verður landselsstofninn talinn í heild sinni úr lofti á vegum Selaseturs Íslands. Stofnstærðarmat á landsel fór síðast fram árið 2011 og hefur þar áður farið fram reglulega síðan árið 1980 og þá hefur verið talið um land allt úr flugvél. Niðurstöður talningarinnar frá 2011 benda til þess að landselstofninn hafi staðið í stað síðan árið 2003 og sé tæplega 12 þúsund dýr.
Selasetrið vil nota tækifærið að þakka sjálfboðaliðum í gengum árin fyrir þáttökuna. Við erum einnig þakklát fyrir veitt leyfi landeiganda að telja í þeirra landi. Að lokum viljum við þakka styrktaraðilum verkefnisins kærlega fyrir stuðningunn. Í ár voru styrktaraðilar verkefnisins eftirtaldir: Kaupfélag Vestur Húnvetninga, Hótel Hvammstangi, BBH útgerð, Söluskálinn Harpa, Húnaprent og Brauð og kökugerðin Hvammstanga.
Sandra Granquist (dýraatferlisfræðingur), verkefnisstjóri.
Starfsmenn Selaseturs og sjálfboðaliðar undirbúa talninguna áður en haldið er af stað.
Selatalningin mikla 2014
Í selatalningunni miklu eru selir taldir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, en svæðinu er skipt upp í mörg misstór svæði (um 2-7 km löng) og ættu allir finna allir vegalengd við sitt hæfi. Selatalningin mikla er skemmtileg upplifun og það er vel þess virði að koma og taka þátt í rannsóknarstörfum setursins. Eftir talninguna verða kaffiveitingar í boði fyrir þátttakendur.
Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína í síðasti lagi 25. júlí. Til að skrá sig og fá nánari upplýsingar má hafa samband á netfang info@selasetur.is eða í síma 451-2345.
Ath! Talningin hentar ekki börnum undir 5 ára og börn á milli 5 og 15 ára mega bara taka þátt í fylgd forráðamanna.