Vinningshafar í happadrætti

Í sumar var tekin í notkun á Selasetrinu rafræn gestabók. Bjóðum við gestum okkar að skrá sig í gestabókina og mánaðarlega er dregið úr nafn heppins gests sem hlýtur að launum stuttermabol frá Selasetrinu.

Vinningshafar sumarsins og fram á haust eru eftirtaldir:

Júlí – Verbena Huber

Ágúst – Eric Vandenbosch

September – Yves Jacobs

Október – Bergsteinn Örn Ólafsson

Við biðjum vinningshafa um að senda okkur línu á netfangið info@selasetur.is með upplýsingum um stærð bols sem óskað er eftir ásamt heimilisfangi.

Við gerum hlé á happadrættinu á tímabilinu frá því í nóvember þar til í mars. 

 

Selasetrið hlýtur styrk

Selasetur Íslands hlaut á dögunum styrk úr Vaxtarsamningi Norðurlands vestra vegna verkefnisins Áframhaldandi sókn náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra. Verkefnið nær til hugmynda og hönnunarvinnu á stækkun og endurbótum á sýningu Selaseturs sem og hugmynda og hönnunarvinnu á útisvæði við Selasetrið sem og hafnarsvæðinu öllu en hafnarsvæðið á Hvammstanga hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Markmiðið með verkefninu er að fá þá ferðamenn sem til Hvammstanga koma til að staldra lengur við í sveitarfélaginu.

Styrkurinn hljóðar upp á 6 milljónir en heildar kostnaður við verkefnið er rúmar 13 milljónir.

Samstarfsaðilar Selaseturs í verkefninu eru fjölmargir: sveitarfélagið Húnaþing vestra, Kaupfélag V-Hún, Ferðamálafélag V-Hún, Gauksmýri ehf, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, Bóka- og skjalasafn V-Hún, Grunnskóli Húnaþings vestra, Ferðamáladeld Háskólans á Hólum, Kidka, Selasigling og Veiðimálastofnun.

Áætlað er að vinna við verkefnið hefjist í lok nóvember og því ljúki um mitt ár 2015. Verkefnisstjóri er Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Selasetursins.

 

Sérfræðingar Selaseturs á vinnustofu í Svíþjóð

Fyrr á þessu ári hlaut Selasetrið ásamt Háskólanum í Stokkhólmi styrk frá Norrænu samstarfsnefndinni um félagsvísindarannsóknir (NOS-H) til að kanna þróun vistfræði og hegðunar ólíkra selategunda í samhengi við hegðun manna og umhverfisbreytingar. Þrír sérfræðingar á vegum Selasetursins, þau Sandra Granquist, Leah Burns og Erlingur Hauksson eru í Svíþjóð þessa dagana til að taka þátt í fyrri vinnustofunni af tveimur um samskipti manna og sela. Sandra og Erlingur halda kynningu um vistfræði og hegðun núlifandi selastofna og Leah heldur kynningu á menningarlegu mikilvægi sels í Norður Evrópu.

Seinni vinnustofan verður haldin á Íslandi síðari hluta árs 2015.

 

Selasetrið á Þjóðarspegli Háskólans

Selasetrið á fulltrúa á Þjóðarspeglinum, árlegri ráðstefnu í félagsvísindum í Háskóla Íslands þann 31. október 2014

Georgette Leah Burns deildarstjóri ferðamálarannsóknasviðs heldur erindi um stjórnun ferðaþjónustu í tengslum við villt dýr og hvernig hægt er að hafa áhrif á þróun slíkrar ferðaþjónustu með þeim hætti að ferðamenn fái að upplifa villt dýralíf á sama tíma og áhrif ferðmennsku á líf dýranna er lágmarkað. Hún segir m.a. frá viðmiðum sem notuð hafa verið við stjórnun slíkrar ferðamennsku í heimalandi hennar, Ástralíu, og hvernig hægt er að nýta sambærileg viðmið við íslenskar aðstæður.

Leah, Sarah Marschall meistaranem og Sandra M. Granquist deildarstjóri líffræðirannsóknasviðs Selasetursins kynna eiga einnig veggspjald á ráðstefnunni. Á því er einnig fjallað einnig tengsl villtra dýra og ferðamennsku. Greint er frá mismunandi leiðum til að fræða ferðamenn um umgengni við dýralífið og áhrif þessarar miðlunar á hegðun ferðamanna.