Sérfræðingar Selaseturs á vinnustofu í Svíþjóð

Fyrr á þessu ári hlaut Selasetrið ásamt Háskólanum í Stokkhólmi styrk frá Norrænu samstarfsnefndinni um félagsvísindarannsóknir (NOS-H) til að kanna þróun vistfræði og hegðunar ólíkra selategunda í samhengi við hegðun manna og umhverfisbreytingar. Þrír sérfræðingar á vegum Selasetursins, þau Sandra Granquist, Leah Burns og Erlingur Hauksson eru í Svíþjóð þessa dagana til að taka þátt í fyrri vinnustofunni af tveimur um samskipti manna og sela. Sandra og Erlingur halda kynningu um vistfræði og hegðun núlifandi selastofna og Leah heldur kynningu á menningarlegu mikilvægi sels í Norður Evrópu.

Seinni vinnustofan verður haldin á Íslandi síðari hluta árs 2015.

 

Selasetrið á Þjóðarspegli Háskólans

Selasetrið á fulltrúa á Þjóðarspeglinum, árlegri ráðstefnu í félagsvísindum í Háskóla Íslands þann 31. október 2014

Georgette Leah Burns deildarstjóri ferðamálarannsóknasviðs heldur erindi um stjórnun ferðaþjónustu í tengslum við villt dýr og hvernig hægt er að hafa áhrif á þróun slíkrar ferðaþjónustu með þeim hætti að ferðamenn fái að upplifa villt dýralíf á sama tíma og áhrif ferðmennsku á líf dýranna er lágmarkað. Hún segir m.a. frá viðmiðum sem notuð hafa verið við stjórnun slíkrar ferðamennsku í heimalandi hennar, Ástralíu, og hvernig hægt er að nýta sambærileg viðmið við íslenskar aðstæður.

Leah, Sarah Marschall meistaranem og Sandra M. Granquist deildarstjóri líffræðirannsóknasviðs Selasetursins kynna eiga einnig veggspjald á ráðstefnunni. Á því er einnig fjallað einnig tengsl villtra dýra og ferðamennsku. Greint er frá mismunandi leiðum til að fræða ferðamenn um umgengni við dýralífið og áhrif þessarar miðlunar á hegðun ferðamanna.  

Selatalningar úr lofti

Sérfræðingar Selasetursins vinna nú að selatalningu úr lofti. Slíkar talningar fóru síðast fram árið 2011. Þá var talið um allt land. Ekki fékkst fjárveiting til talninga um allt land í ár og því ekki hægt að byggja stofnstærðarmat á þeim gögnum sem safnast í ár. Talningin í ár mun þó gefa visbendingar um fjölda landsela í helstu látrum landsins.
 
Markmið talningarinnar í ár er að prófa nýja aðferð sem í framtíðinni má ef til vil nota við stofnstærðaráætlanir.  Fram til þessa hefur aðeins verið talið úr flugvél en í ár eru gerðar tilraunir með talningar með aðstoð ómannaðs loftfars og úr þyrlu til viðbótar við hefðbundnar talningar úr flugvél.  Ætlunin er að bera saman þessar þrjár talningaraðferðir.
 
Þau svæði sem talið er á í ár eru: Akraós, Löngufjörur, Heggstaðanes, Hvammsfjörður, Vatnsnes, Strandir, Ísafjarðardjúp, Rauðisandur, Arnarfjörður og Suðurland.
 
Verkefnisstjóri verkefnisins er Sandra Granquist, meðverkefnisstjóri er Erlingur Hauksson.
 
Tryggvi Stefánsson serfræðingur hjá Svarma með ómannaða loftfarið sem notað er við talningarnar.
 
Erlingur Hauksson meðverkefnisstjóri og Sandra Granquist verkefnisstjóri
 
Sellátur úr lofti

Meistaranemi á Selasetrinu

Sérfræðingar Selaseturs frá oft beiðnir um að leiðbeina nemendum við gerð lokaverkefna. Þessa dagana er Sarah Marschall, meistaranemi frá Háskólasetri Vestfjarða að vinna verkefni undir leiðsögn Söndru Granquist deildarstjóra líffræðirannsóknasviðs og Leah Burns deildarstjóra ferðamálarannsóknasviðs. Verkefni Söruh nær yfir hvernig best er að koma skilaboðum til ferðamanna varðandi hvernig á að haga sér í kringum villt dýr, til að lágmarka neikvæð áhrif.

Sarah Marschall (tv) ásamt Valerie sjálfboðaliða á Selasetrinu en hún aðstoðar Söruh í ágúst við vinnu á vettvangi.