Ný skýrsla

Sandra Granquist, deildarstjóri líffræðisviðs við Selasetur Íslands, gaf nýverið út skýrsluna Stjórnun og ástand íslenska landselsstofnsins 2016: Selveiði og stofnstærðarmat ásamt Erlingi Haukssyni.

Skýrsluna má nálgast hér: http://www.veidimal.is/files/Skra_0075605.pdf

Nýir sérfræðingar

Þann 1. júlí hófu störf  við Selasetur Íslands tveir nýir sérfræðingar á sviði selarannsókna. Þeir munu starfa undir handleiðslu Söndru Granquist, deildarstjóra líffræðarannsóknasviðs við Selasetur Íslands.

Sérfræðingarnir eru Dr Alastair Baylis og Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Dr Alastair Baylis útskrifaðist með doktorsgráðu frá Háskólanum í Adelaide í Ástralíu árið 2008. Aðalviðfangsefni doktorsritgerðar hans var fæðunám loðsela (New Zealand fur seals) í Suður-Ástralíu. Al hefur áður unnið fyrir UBC sjávarspendýrarannsóknastöðina á Pribilof-eyjum, í Alaska og á Falklandseyjum, en þar stundaði hann rannsóknir á sæljónum (southern sea lions) og Suður-Amerískum loðselum, en þetta eru stofnar sem höfðu fram að þeim tíma verið mjög lítið rannsakaðir. Aðaláhugamál hans á sviði selavistfræði eru m.a. söguleg vistfræði, stofnstærðarbreytingar, stofnerfðafræði og fæðuvalsrannsóknir. 

 

Jóhann Garðar Þorbjörnsson útskrifaðist með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Árið 2015 lauk hann meistaranámi frá Háskólanum á Hólum, þar sem hann rannsakaði áhrif kafara á vistkerfi grunvatnsgjárinnar Silfru á Þingvöllum. Í meistaranámi sínu dvaldi hann sex mánuði á Svalbarða þar sem hann stundaði skiptinám á sviði heimskautalíffræði. Jóhann hefur sérstakan áhuga á áhrifum mannsins á lífkerfi.

Við bjóðum þá Al og Jóhann hjartanlega velkomna, og óskum þeim velfarnaðar í starfi.

Önnur meistararitgerð varin

 

Miðvikudaginn 27. apríl varði Georgia Clack meistaraverkefni sitt við Háskólasetur Vestfjarða. Verkefni hennar heitir The impact of tourism on harbour seals and their distribution around Iceland.

Leibeinendur Georgiu voru  Sandra M. Granquist, deildarstjóri líffræðirannsókna við Selasetur Íslands og selasérfræðingur Veiðimálastofnunar; og Erlingur Hauksson, sjávarlíffræðingur hjá Vör sjávarrannsóknarsetri við Breiðarfjörð.