Gestatölur og velta hjá safn- og ferðaþjónustuhluta Selaseturs Íslands fyrri helming ársins 2017

27% veltusamdráttur í júní

Samanburður milli ára er erfiður fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, þar sem Selasetur Íslands var í fyrsta sinn með auglýstan og fastan opnunartíma að vetri nú síðastliðinn vetur. Janúar-apríl var því góð aukning bæði á heildargestafjölda og veltu. Í heildargestafjölda teljum við bæði þá sem einungis koma í upplýsingamiðstöðina og þá sem borguðu sig inn á safnið. Í janúar var heildargestafjöldinn 301, í febrúar 438, í mars 1.219, og í apríl voru gestirnir í heild 1.283. Heildargestafjöldi fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 var því 3.241, miðað við 1.860 árið 2016 – eða fjölgun um 74%, á sama tíma jókst veltan um 58%. Það skal þó áréttað að opnunartími á milli ára er ekki sambærilegur, og því skal taka þessum tölum með fyrirvara, og hafa í huga að allir gestir þessa 4 mánuði eru færri en gestirnir sem komu í maí.

Opnunartími í maí og júní er hinsvegar sambærilegur.

Í maí 2017 var heildarfjöldi gesta 3.312, sem er 1% fækkun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 17%. Þó jókst fjöldi gesta sem borguðu sig inn á safnið um 6% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Í júní 2017 var heildarfjöldi gesta 6.941, sem er 6% fjölgun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 27%. Þó jókst fjöldi gesta sem borgaði sig inn á safnið um 14% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Tekið skal fram að aðgangseyrir inn á safnið hefur staðið í stað síðan 2012, vörur sem keyptar eru inn á Íslandi hafa staðið í stað í verðlagi á milli ára, og sterkari stöðu krónunnar og afnámi tolla hefur verið skilað að fullu inn í lægra vöruverð í þeim tilfellum sem Selasetrið flytur vörurnar inn.