Guðríður Hlín nýkjörin formaður Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra

Á nýafstöðnum aðalfundi Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra var Guðríður Hlín Helgudóttir kjörin formaður samtakanna.

Guðríður er ferðamálafræðingur frá Háskólanum á Hólum, og ferðaskrifstofustjóri Seal Travel, en sú ferðaskrifstofa er í eigu Selaseturs Íslands.

Við óskum henni til hamingju með embættið.

Gestum á fyrsta ársfjórðungi fækkar um 14% milli ára

 

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Húnaþingi vestra, sem rekin er á Selasetri Íslands, tók á móti 1679 gestum fyrstu þrjá mánuði ársins 2018. Sama ársfjórðung árið 2017 tókum við á móti 1958 gestum. Þetta er 14% fækkun á milli ára.

Einnig keyptu 10% færri sig inn á safnið á milli ára á fyrsta ársfjórðungi.

Gestum fækkaði á milli ára alla 3 mánuði ársfjórðungsins, eða um 17% í janúar, um 16% í febrúar, og um 13% í mars. Fækkun gesta má að hluta til skýra með veðurfari og færð á vegum í janúar og febrúar, en því var ekki til að dreifa í mars.

Langsamlega fæstir heimsækja Selasetrið á fyrsta og fjórða ársfjórðungi, svo þessi fækkun hefur lítið að segja um þróun heildarfjölda gesta á ársgrundvelli – en þessar tölur kunna að vera vísbending um ákveðna kólnun í ferðaþjónustunni, sérstaklega á svokölluðum jaðarsvæðum.

Gestatölur 2017

Nú þegar árið er liðið er ekki úr vegi að líta um öxl. Árið 2017 komu til okkar 42.481 gestir í heild í upplýsingamiðstöð Húnaþings vestra á Selasetri Íslands. Þetta er 8% aukning á gestafjölda frá árinu 2016, en það verður að segjast eins og er að þessi aukning er mjög lítil miðað við árin á undan, en á milli 2015 og 2016 fjölgaði um 44%, og á milli 2014 og 2015 um 35%. Það er því ljóst að mjög dróst úr aukningu ferðamanna á síðasta ári, sem eitt og sér skiptir ekki öllu, en alvarlegur fylgifiskur er sá 29% veltusamdráttur á milli ára sem bráðabirgðatölur okkar sýna að hafi átt sér stað.

Inn á safnið borguðu sig 13.417 gestir árið 2017, sem er 12% aukning miðað við árið 2016, og mikið gleðiefni að fjölgunin inn á safnið hafi verið meiri en gestafjölgun almennt – þó verður að taka fram að veltusamdrátturinn sem fyrr er getið er svona mikill þrátt fyrir þessa aukningu á sölu inn á safnið, og má af því ráða að árið 2017 hafi ferðamenn haldið mikið í við sig í minjagripaverslun og afþreyingu.

Nýr gagnvirkur sýnisgripur um útselskóp opnaður

 

Nýlega var tekinn í notkun nýr gagnvirkur sýnisgripur, sem notar GPS hnit til að rekja ferðir selskóps sem vísindamenn á vegum Selaseturs Íslands merktu 2016.

Mætti góður hópur á opnunina og vakti gripurinn, sem hannaður er af Gagarín, mikla lukku.

Verkefnið er styrkt af National Marine Aquarium í Bretlandi, Sóknaráætlun Norðurlands vestra, og Húnaþingi vestra.

Gestatölur og velta hjá safn- og ferðaþjónustuhluta Selaseturs Íslands fyrri helming ársins 2017

27% veltusamdráttur í júní

Samanburður milli ára er erfiður fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, þar sem Selasetur Íslands var í fyrsta sinn með auglýstan og fastan opnunartíma að vetri nú síðastliðinn vetur. Janúar-apríl var því góð aukning bæði á heildargestafjölda og veltu. Í heildargestafjölda teljum við bæði þá sem einungis koma í upplýsingamiðstöðina og þá sem borguðu sig inn á safnið. Í janúar var heildargestafjöldinn 301, í febrúar 438, í mars 1.219, og í apríl voru gestirnir í heild 1.283. Heildargestafjöldi fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 var því 3.241, miðað við 1.860 árið 2016 – eða fjölgun um 74%, á sama tíma jókst veltan um 58%. Það skal þó áréttað að opnunartími á milli ára er ekki sambærilegur, og því skal taka þessum tölum með fyrirvara, og hafa í huga að allir gestir þessa 4 mánuði eru færri en gestirnir sem komu í maí.

Opnunartími í maí og júní er hinsvegar sambærilegur.

Í maí 2017 var heildarfjöldi gesta 3.312, sem er 1% fækkun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 17%. Þó jókst fjöldi gesta sem borguðu sig inn á safnið um 6% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Í júní 2017 var heildarfjöldi gesta 6.941, sem er 6% fjölgun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 27%. Þó jókst fjöldi gesta sem borgaði sig inn á safnið um 14% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Tekið skal fram að aðgangseyrir inn á safnið hefur staðið í stað síðan 2012, vörur sem keyptar eru inn á Íslandi hafa staðið í stað í verðlagi á milli ára, og sterkari stöðu krónunnar og afnámi tolla hefur verið skilað að fullu inn í lægra vöruverð í þeim tilfellum sem Selasetrið flytur vörurnar inn.