Útselsmerkingar á Ströndum

Í amstri dagsins er stundum hollt að hugleiða gamla tíma og velta fyrir sér aðstæðum forfeðra sinna. Þó menn og konur hafi lagt sitt af mörkum til að búa sér og sínum viðunandi lífsviðurværi var hér kuldi og vosbúð og spart þurfti að fara með hlutina. Á Íslandi finnast þó ýmis gæði sem má nýta til matar, skjóls og hlýju. Á Ströndum er stórbrotin náttúrufegurð og merki um forna bæi sem gátu með sjálfbærum hætti lifað af landsins gæðum. Vott um þessi gæði má sjá víða, æðarfuglarnir kalla í sjónum og selurinn liggur í fjörunni, umkringdur rekavið (og síðastliðna áratugi plastafgangi) sem hefur skolast um heimshöfin og fundið sér heimili í kyrrlátum fjörum Vestfjarða.

Rekaviður í fjörunni. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Þó svo að æðarfuglar, rekaviður og plastafgangar séu sérstaklega áhugaverð viðfangsefni mun ég nú ræða sel. Selur var nefnilega sérlega mikilvægur árum áður; hann var nýttur til matar og skinnin seld – það þótti mikið lán að byggja jörð þar sem selir voru til staðar. Hér við land finnast tvær tegundir sela, landselur og útselur. Landselinn kannast flestir við – hann finnst víða um land, heldur sig nærri mannabyggðum og fylgist oft forvitinn með hegðun okkar mannfólksins. Útselurinn heldur sig, rétt eins og nafnið gefur til kynna, utar eða fjærri mannabyggðum og kann helst við sig á einmannalegum útskerjum umkringdum köldu hafi. Karldýrin kallast brimlar, kvendýrin urtur, ungselir kópar og að jafnaði eignast kynþroska urta 1 kóp á ári. Þetta gerist snemmsumars hjá landsel en að hausti hjá útsel og fæðast kóparnir á svokölluðum látrum, en það eru þau svæði sem selirnir kalla heimkynni sín á landi.

Landselir í Látri. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson. Útselir í látri. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Síðastliðna áratugi hefur fækkað mikið í stofnum beggja tegunda. Það er því sérstaklega mikilvægt að leggjast í rannsóknir svo hægt sé að meta hvað kann að valda þeirri hnignun. Selasetur Íslands ber ábyrgð á selarannsóknum á Íslandi og ákvað nýlega að hefjast handa við að merkja útselskópa með gervihnattasendum. Þetta getur gefið upplýsingar um hegðun selanna og hvort þeir ferðist milli svæða eða landa.  

Árla morguns lögðum við af stað frá Hvammstanga í þriggja manna teymi. Á Norðurfirði á Ströndum beið okkar lítil trilla, Gísli ST 23, spennt að fá að kljást við sjóinn í leit að öldum og ævintýrum. Markið var sett á Drangasvæðið, suðaustan við mörk Friðlandsins að Hornströndum, heimkynni nokkurra stærri útselslátra Íslands; Drangaskarða, Meyjarsels og Skaufasels. Eftir fallega sjóferð meðfram fjörum austur Stranda lögðumst við að landi, en þar sem daginn hefur verulega tekið að stytta svona seint í október var ekki annað til stefnu en að setja upp tjöld og við leggjast til hvílu. Daginn eftir skyldi merkja seli.

 Við bryggjuna í Norðurfirði. Mynd: Alastair Baylis.  Á leiðinni. Drangaskörð í baksýn. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Við vöknuðum við brot brimsins og gengum til móts við sólarupprásina í átt að Drangaskörðum. Þennan morgun var það ekki bara veðurblíða sem tók á móti okkur, heldur fjölmargar hvítar loðkúlur sem kúrluðust í fjörunni. Þarna var vissulega um að ræða nýfædda útselskópa. Nýfæddir kópar fæðast með fósturhár sem af þeim falla innan nokkurra vikna frá fæðingu. Til þess að hægt sé að merkja kópa í þeirri vissu að merkið endist út árið þarf að merkja kópa sem þegar hafa fellt fósturhár. Ári seinna fara þeir aftur úr hárum og merkið fellur þá af þeim. Þeir fá síðan nýjan feld árlega þar á eftir.

 Gengið undir Drangaskörðum. Mynd: Alastair Baylis.  Núr útselskópur. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson. 

Þennan dag merktum við þrjá kópa. Þeir eru misjafnir í skapinu, þeim fyrsta leist lítið á að vera fastur í neti og fá á sig gervihnattamerki, meðan þeim síðasta stóð á sama, dottaði hljóðlega í netinu og gaf okkur þar með góðfúslegt leyfi til að líma á sig merki. Næstu daga gengum við milli látra og merktum alls fimm kópa. Veðurblíðan var ekki alltaf sú sama, við fengum prýðilegan skammt af rigningu og stormi.

 Útselskópur fer úr hárum. Hárin má sjá kringum kópinn. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson. Staðið að merkingum. Mynd: Rachel Orben.   

Eftir merkingar er kópunum sleppt og þeir fara þá hver sína leið. Næsta árið munu merkin gefa okkur reglulega staðsetningu hvers kóps. Á Selasetrinu fylgjumst við nú náið með ferðum þeirra og vonum innilega að þeir lifi út árið svo við getum hafist handa við að fletta ofan af hegðunarmynstri íslenskra útsela og því sem þá kann að hrjá. 

 Hér má sjá staðsetningu fimm útselskópa 3. nóvember 2016. Tveir halda sig nálægt hvor öðrum! Mynd: Skjáskot af heimasíðu ARGOS. Rannsóknarmenn. Frá vinstri: Jóhann Garðar Þorbjörnsson, Alastair Baylis, Rachel Orben. Mynd: Jóhann Garðar Þorbjörnsson.

Myndir: Alastair Baylis, Rachel Orben og Jóhann Garðar Þorbjörnsson
Texti: Jóhann Garðar Þorbjörnsson