Tilkynning frá Selasetri Íslands – ráðning framkvæmdastjóra

Selasetur Íslands hefur ráðið Örvar Birkir Eiríksson sem framkvæmdastjóra frá og með áramótum. Jafnframt hefur Páll L. Sigurðsson látið af störfum frá og með sama tíma.

Gunnlaugur Ragnarsson stjórnarformaður og Örvar Birkir Eiríksson nýr framkvæmdastjóri Selaseturs

Örvar er fæddur árið 1976 og uppalinn á Syðri-Völlum í Kirkjuhvammshreppi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann hefur verið tíður gestur á heimaslóðum í gegnum tíðina þar sem foreldrar hans búa enn. Örvar hefur því mikla og sterka tengingu við samfélagið í Húnaþingi vestra.

Örvar er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og stundað auk þess MA nám í sama fagi og diplómanám í markaðs- og útflutningsfræðum. Nú síðast lauk hann M.Ed. gráðu í kennslu samfélagsgreina frá Háskóla Íslands. Örvar er kvæntur Erlu Björgvinsdóttur þroskaþjálfa og eiga þau samtals fimm börn.

Örvar starfaði m.a.  um 7 ára skeið í Viðey við menningartengda ferðaþjónustu og í 9 ár sem verslunarstjóri í alþjóðlegri verslunarkeðju. Síðustu ár hefur hann starfað sem kennari.

Stjórn Selaseturs Íslands býður Örvar velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins við hann. Jafnframt þakkar stjórnin Páli L. Sigurðssyni kærlega fyrir samstarfið og vel unnin störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

Lyklaafhending – Páll og Örvar

f.h. stjórnar Selaseturs Íslands ehf.
Gunnlaugur Ragnarsson
Stjórnarformaður