Út er komið fuglastígskort fyrir Norðurland vestra. Á kortinu eru merktir 17 staðir sem þykja áhugaverðir fyrir fuglaskoðunaráhugamenn allt frá Borðeyri í vestri að Þórðarhöfða í austri. Verkefnið er unnið af Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra í samvinnu við Selasetur Íslands, Ferðamálafélag V-Hún, Ferðamálafélag A-Hún, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra og hefur verkefnastjórn verið á höndum Selaseturs Íslands.
Fuglaskoðun er vinsælt áhugamál um heim allan og eru vinsældir hennar ört vaxandi. Fuglaskoðaðar, sem og annað ferðafólk sem hefur áhuga á náttúruskoðun, sækjast eftir að skoða áhugaverða staði þar sem náttúran er óspillt og fuglarnir lifa í sínu náttúrulega umhverfi. Fuglaskoðaðar ferðast margir hverjir gagngert til ákveðinna landa og svæða til fuglaskoðunar. Þetta er almennt séð hópur sem kaupir nokkuð mikla þjónustu og staldrar við í lengri tíma á hverjum stað en hinn hefðbundni ferðamaður. Þetta er líka hópur sem ber virðingu fyrir náttúrunni og gengur vel um.
Vonir eru bundnar til að fuglastígurinn muni efla ferðamennsku á Norðurlandi vestra með því að víkka út þann hóp ferðamanna sem hingað kemur sem og lengja þann tíma sem ferðamenn sækja landsvæðið heim. Stígurinn getur verið einn af vaxtarbroddum ferðaþjónustunnar og lengt ferðamannatímabilið snemma á vorin þegar til dæmis tún á Norðurlandi vestra fyllast af helsingjum, álftum og gæsum og á haustin þegar fuglar koma saman í stórum hópum til að undirbúa sig undir flugið á vetrarstöðvarnar. Norðurland vestra er mjög vel til fuglaskoðunar fallið og er aðgengi að fuglategundum sem þykja eftirsóknarverðar til skoðunar gott.
Vinna við verkefnið hefur staðið í á þriðja ár. Sumarið 2014 var Ellen Magnúsdóttir fuglafræðingur ráðin til starfa og skoðaði hún vænlega staði og taldi tegundir sem þar sáust. Byggt á hennar athugunum voru staðirnir valdir sem eru á þessari fyrstu útgáfu kortsins. Vert er að vekja athygli á því að þessir staðir eru langt frá því að vera þeir einu sem koma til greina til fuglaskoðunar á svæðinu. Fjölmargir aðrir staðir eru áhugaverðir í þessu augnamiði og stefnt er á að fjölga þeim jafnt og þétt í síðari útgáfum. Sótt hefur verið um styrki til áframhaldandi athugana á fuglum á svæðinu til að halda áfram að þróa stíginn.
Kortinu verður dreift til ferðaþjónustuaðila á svæðinu án endurgjalds en mælst til þess að þeir selji kortið á vægu verði (200 kr.). Þannig má stemma stigu við því að mikið magn kortanna lendi í ruslinu en afar kostanðarsamt er að vinna verkefni af þessum toga. Kortinu verður einnig dreift á einni af stærstu fuglasýningum heims í Bretlandi næsta haust.
Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við fuglastíg á Norðurlandi eystra og er kortið sem kemur út á næstu dögum í sama útliti og kortið á Norðurlandi eystra. Þar með er náð fram samfellu og fuglaskoðarar geta þá hæglega sett saman þessa tvo stíga til að sjá enn fleiri staði á Norðurlandi öllu.
Kortið er hannað og sett upp af Blokkinni á Húsavík og prentað í Nýprent á Sauðárkróki.