Kampselur á Borgarfirði

Selasetrið fékk á dögunum tilkynningu um kampsel sem haldið hefur til í fjörunni á Borgarfirði eystra um þriggja vikna skeið. Selurinn hefur gert sig heimakominn en kampselir eru sjaldgæfir gestir á Borgarfirði.  Þetta er önnur tilkynningin um kampsel sem Selasetrinu hefur borist á skömmum tíma, sjá frétt hér.  Hinn fyrri sem tilkynnt var um sást á hinum enda landsins, í Veiðileysufirði á Jökulfjörðum.

Kampselurinn er stærri en landselur, en minni en fullvaxin útselur. Hans helsta sérkenni eru geysilega löng veiðihár. Hann er einnig mjög gæfur og rólegur, sem gerði hann að fyrirtaks bráð selveiðimanna áður fyrr. Nánari upplýsingar um kampseli má finna hér.

Við þökkum Borgfirðingum  fyrir upplýsingarnar en mikilvægt er fyrir sérfræðinga Selasetursins að heyra af því þegar flækingar sjást hér við land.

 Kampselur Selasetur Íslands

Mynd: Hafþór Snjólfur

Kampselur í Veiðileysufirði

Þann 13. maí sáu ferðalangar í skíðaferð á vegum Aurora Arktika Kampsel í fjörunni í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum. Kampselir eru sjaldséðir gestir við Íslandsstrendur og eru auðþekktir af tignarlegu skeggi. Nánari upplysingar um kampseli má finna hér.

Við þökkum vinum okkar í Aurora Arktika fyrir upplýsingarnar en mikilvægt er fyrir sérfræðinga Selasetursins að heyra af því þegar flækingar sjást hér við land.

Ljósmyndari: Roland Tomascko

Vöðuselskópur í Skagafirði

Í nýjasta tölublaði Feykis er greint frá vöðuselskópi sem fannst í fjörunni skammt frá gömlu brúnni við Vesturós Héraðsvatna. Í greininni er vitnað í Söndru Granquist deildarstjóra lífrræðirannsóknarsviðs Selasetursins.

Mikilvægt er fyrir sérfræðinga Selasetursins að fá upplýsingar eins og þessar til að skrá, sérstaklega um þær tegundir sem alla jafna kæpa ekki hér við land. 

Nánari upplýsingar um vöðuseli má finna hér.

 

 

Grein Feykis.

Sarah Marschall ver meistararitgerð sína

Á síðasta ári var Sarah Marschall við rannsóknir á hegðun ferðamanna við Illugastaði á Vatnsnesi í tenglsum við meistaraverkefni sitt við Háskólasetur Vestfjarða. Í dag, þriðjudaginn 28. apríl, kl. 14:00, mun Sarah kynna og verja ritgerð sína, sem ber titilinn:Interpretation in Wildlife Tourism: Assessing the effectiveness of signage to modify visitor’s behaviour at a seal watching site in Iceland.  

Leiðbeinendur hennar eru Sandra M. Granquist, doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla og yfirmaður selarannsókna hjá Selasetri Íslands og dr. Georgette Leah Burns, deildarstjóri ferðamáladeildar við Háskólann á Hólum. Prófdómari er Rodrigo Menafra, gestakennari við Háskólasetur Vestfjarða.

Nánari upplýsingar og ágrip má finna hér.

Sarah Marschall

Sarah Marschall in the field.

Spennandi starf á Selasetrinu og Háskólanum á Hólum

Sérfræðingur óskast til starfa við Selasetur Íslands og Háskólann á Hólum

Við ferðamáladeild Háskólans á Hólum er lögð áhersla á ferðamál í dreifbýli í rannsóknum og kennslu. Meginmarkmið Selaseturs Íslands er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland. Starfsaðstaða í Selasetri Íslands á Hvammstanga og í háskólaþorpinu á Hólum er góð, þar eru fjölskylduvæn samfélög og falleg náttúra. Sjá nánar á www.selasetur.is og www.holar.is.

Í starfinu felst:

  • kennsla og rannsóknir
  • þátttaka í uppbyggingu náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
  • þátttaka í stefnumótun og fjármögnun rannsóknaverkefna Selaseturs Íslands og Háskólans á Hólum í nánu samstarfi við aðra starfsmenn stofnananna

Við leitum að einstaklingi með:

  • doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdra fræðasviða
  • góða þekkingu á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu og/eða byggðaþróunar með áherslu á heimskautasvæði og ferðamál í dreifbýli
  • reynslu af rannsóknum, kennslu, stjórnun og þróunarstarfi
  • ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum 

Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 15. ágúst 2015 og er krafist búsetu á Hvammstanga.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Georgette Leah Burns deildarstjóri ferðamáladeildar (sími 863 0308, netfang leah@holar.is) eða Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands (sími 451 2345, netfang selasetur@selasetur.is).

Umsóknarfrestur er til 15. maí 2015. Umsóknir ásamt afritum af prófskírteinum, ferilskrá og samantekt fræðastarfs sendist á netfangið umsoknir@holar.is eða til Háskólans á Hólum b/t Erla Björk Örnólfsdóttir, 551 Sauðárkróki.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.