Við vekjum athygli á áhugaverðum fyrirlestri meistaranema, Cécile Chauvat, á Selasetrinu á morgun, 28. júní. Cécile, sem stundar nám við Háskólasetur Vestfjarða, ætlar að halda fyrirlestur um viðhorf ferðamanna til visthvolfs.
Nýr starfsmaður kominn til starfa
Einar Ó. Þorleifsson náttúrufræðingur hefur tekið til starfa hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. Hann er menntaður í landfræði frá Háskóla Íslands með sérgreinar í líffræði og jarðfræði. Einar hefur lagt stund á fuglarannsóknir til margra ára. Helstu sérgreinar hanns eru votlendislífríki og votlendisfuglar. Einar hefur einnig fengist við rannsóknir á útbreiðslu fugla, sérstaklega þær fuglategundir sem hafa numið land á Íslandi á tuttugustu öld og fram til dagsins í dag.
Einar mun vinna að ýmsum náttúrurannsóknum aðallega á sviði fuglafræði á því víðfema svæði sem náttúrustofan sinnir. Hann hefur aðsetur við Selasetrið á Hvammstanga.
Áhugasömum sem hafa upplýsingar um áhugaverða fugla, t.d. nýja varpstaði eða fundarstaði plantna eða sérstök jarðfræðifyrirbrigði er velkomið að leita til hans um frekari upplýsingar.
Náttúrustofuþing 2019
Náttúrustofuþing verður haldið á Sauðárkróki fimmtudaginn 16. maí.
Allir velkomnir.
Húnaklúbburinn fær heimsókn frá Svíþjóð
Einn af helstu samstarfsaðilum Háskólans á Hólum er Selasetur Íslands á Hvammstanga. Jessica Aquino, lektor við Ferðamáladeild, starfar við báðar stofnanirnar og leiðir þær rannsóknir Selasetursins sem lúta að ferðamennsku.
Meðal verkefna Jessica við Selasetrið er að leiða Húnaklúbbínn. Klúbburinn hefur þann megintilgang að efla þekkingu og virðingu ungmenna fyrir náttúrunni. Um klúbbinn, tilurð hans og markmið, má nánar lesa hér á vef Selasetursins.
Á enska hluta Hólavefsins er í dag sagt frá heimsókn sænskra unglinga til Húnaklúbbsins. Verkefni þetta hlaut styrk úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins, og er þar flokkað sem Good Practice Example.
Nýtt stofnstærðarmat á íslenska útselsstofninum
Nýtt stofnstærðarmat á íslenska útselsstofninum var nýlega framkvæmt af Hafrannsóknastofnun í samstarfi við Selasetri Íslands og niðurstöður verkefnisins birtar í skýrslu sem nálgast má hér.
Útselsstofinn er núna metinn vera um 6300 dýr, en þegar stofninn var metinn siðast árið 2012 var áætluð stofnstærð um 4200 dýr. Stofninn er núna metinn vera 32% minni en við fyrstu talningu sem gerð var árið 1982 en þá var stofninn metinn rúmlega 9200 dýr. Breytingar á heildarstofnstærð byggt á talningum frá 2005 til 2017 eru ekki tölfræðilega marktækar, þar sem stofnstærðin 2017 er svipuð því sem var árið 2008/9 og aðeins meiri en árið 2005.
Stofnstærðin árið 2017 er metin yfir viðmiðunarmörkum stjórnvalda, sem eru 4100 dýr. Á válista íslenskra spendýra sem er metinn samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) mun íslenski útselsstofninn því lenda í áhættuflokknum „Í nokkurri hættu“ (Vulnerable), en byggt á síðustu talningum (frá árinu 2012) var stofninn flokkaður sem stofn í hættu (Endangered).
Niðurstöður talninganna sýna að útselskæping náði hámarki á tímabilinu 2. október (Frameyjar í Breiðafirði) til 24. október (Strandir). Breiðafjörður var sem áður langmikilvægasta kæpingarsvæðið, en þar fæddust um 58% af heildarfjölda kópa haustið 2017. Önnur mikilvæg kæpingarsvæði voru Strandir og Skagafjörður á Norðurlandi vestra, ásamt Surtsey og Öræfum á Suðurlandi.
Ástand útselsstofns er talið vera töluvert betra en hjá landselsstofninum, þar sem fækkað hefur í landselsstofni um 77% frá árinu 1980 þegar mælingar hófust, og fækkað um þriðjung í stofninum á árunum 2011-2016 þegar stofnmat var síðast framkvæmt. Landselsstofninn er metinn „í bráðri hættu“ á válista íslenskra spendýra.