Í rúmt ár hefur Selasetrið verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni styrktu af Evrópusambandinu sem heitir STAR – Sustainable Tourism. Verkefnið snýst í stuttu máli um að leiðbeina fólk hvernig hægt er að ferðast með vistvænni hætti. Hefur í því samhengi verið hannað smáforrit og búinn til bæklingur/handbók sem nýtist bæði ferðamönnum og aðilum í ferðaþjónustunni sem vilja stunda vistvænni ferðamennsku.
Hér má sjá bæði handbókina og skjáskot af upphafssíðu smáforritsins/leiksins sem hægt er að nálgast á Play Store og við hvetjum fólk til að prófa.
Um miðjan júní fundaði hópurinn, sem samanstendur af aðilum frá Grikklandi, Rúmeníu, Spáni auk Íslands, í Aþenu þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins og næstu skref. Var það bæði gagnleg og ánægjuleg heimsókn og einn af hápunktunum var leiðsögn um Akrópólis. Hér má sjá nokkrar myndir frá þessari mögnuðu borg.