Selatalningin mikla

Selatalning mikla hófst árið 2007 á vegum Selaseturs Íslands og Veiðimálastofnunar. Nýjasta talningin fór fram sunnudaginn 25. júlí 2021 og voru taldir alls 718 selir.  Sem er talsvert fleiri selir en fór fram í talningunni 2016, en þá voru taldir 580 selir.

Markmið selatalningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela í kringum Vatnsnes og Heggstaðanes, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands.

Selatalningin mikla fer þannig fram að selir eru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi  í Húnaþingi vestra,  samtals um 100km. Talningarnar fara þannig fram að Vatnsnesi og Heggstaðarnesi sem er skipt niður í mismunandi svæði (2-7km löng) og svo telja sjálboðaliðarnir seli, hver á sínu svæði og skila inn sínum niðurstöðum. Talið er meðfram ströndinni allt frá Hrútafirði inn að botni Sigríðastaðavatns. Farið er gangandi, ríðandi eða á báti.

Mikilvægt er að hafa í huga að þessar selatalningar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda sela sem dvelja á þessum svæðum og geta þættir eins og mismunandi veðurskilyrði þegar talið er skekkt niðurstöðurnar. En niðurstöðurnar nýtast vísindamönnum engu að síður vel til að meta ástand selastofna á þessum tveimur svæðum og til samanburðar á milli ára. Til þess að fá sambærilegar tölur á milli ára er miðað við að telja við sem líkastar aðstæður í hvert sinn. Alltaf er talið á sunnudegi í lok júlí, þegar sjávarstaða er sem næst háfjöru.

Talningin byggir algjörlega á þátttöku sjálfboðaliða, en með þessu móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma.

  • Niðurstöður selatalninganna á árunum 2007-2012 má finna hér.  Verkefnisstjóri var Sandra Granquist.
  • Selatalningin 2016, þá var Jessica Faustini Aquino verkefnisstjóri.
  • Selatalningin 2021 & 2022, þá var Páll L Sigurðsson, verkefnisstjóri.
  • Nánari sögulegar upplýsingar má finna á vef viðburðarins á wikipedia.

Upplýsingar fyrir þátttakendur á vettvangi

  • Það er mikilvægt að telja einungis seli sem eru á þínu svæði, svo að hver selur sé aðeins talinn einu sinni.
  • Þú skráir niður alla seli sem þú sérð, hvort sem það er á landi, skeri eða í sjó, auk tímasetningar. Ef hægt er að að greina á milli Landssels og Útsels, þá vinsamlegast skráið það líka.
  • Það er mikivægt að muna, að ekki sjá allir seli, en það er jafn mikilvægt fyrir okkur að vita það og sjá seli.
  • Vinsamlega ferðastu af vargætni og án hávaða, þar sem það getur fælt selina áður en þú getur talið þá. Vinsamlegast ekki koma með hund af sömu ástæðu. Nánar má lesa um hegðun við selaskoðun hér.
  • Vinsamlegast gangið vel um svæðið, gangið ekki yfir ræktuð svæði, virðið girðingar/hlið, ónáðið ekki dýrin og leggið bílum á öruggum stöðum.
  • Varðandi sjónauka, þá er mjög gott að hafa þá með sér en ekki nauðsynlegt til þátttöku. Selasetrið á nokkra sjónauka og það er möguleiki að fá lánaðann sjónauka meðan birgðir endast.