Gestatölur og velta hjá safn- og ferðaþjónustuhluta Selaseturs Íslands fyrri helming ársins 2017

27% veltusamdráttur í júní

Samanburður milli ára er erfiður fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, þar sem Selasetur Íslands var í fyrsta sinn með auglýstan og fastan opnunartíma að vetri nú síðastliðinn vetur. Janúar-apríl var því góð aukning bæði á heildargestafjölda og veltu. Í heildargestafjölda teljum við bæði þá sem einungis koma í upplýsingamiðstöðina og þá sem borguðu sig inn á safnið. Í janúar var heildargestafjöldinn 301, í febrúar 438, í mars 1.219, og í apríl voru gestirnir í heild 1.283. Heildargestafjöldi fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 var því 3.241, miðað við 1.860 árið 2016 – eða fjölgun um 74%, á sama tíma jókst veltan um 58%. Það skal þó áréttað að opnunartími á milli ára er ekki sambærilegur, og því skal taka þessum tölum með fyrirvara, og hafa í huga að allir gestir þessa 4 mánuði eru færri en gestirnir sem komu í maí.

Opnunartími í maí og júní er hinsvegar sambærilegur.

Í maí 2017 var heildarfjöldi gesta 3.312, sem er 1% fækkun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 17%. Þó jókst fjöldi gesta sem borguðu sig inn á safnið um 6% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Í júní 2017 var heildarfjöldi gesta 6.941, sem er 6% fjölgun miðað við 2016. Á sama tíma dróst heildarveltan saman um 27%. Þó jókst fjöldi gesta sem borgaði sig inn á safnið um 14% á sama tímabili, og safnið er því stærri hluti heildarveltunnar en áður.

Tekið skal fram að aðgangseyrir inn á safnið hefur staðið í stað síðan 2012, vörur sem keyptar eru inn á Íslandi hafa staðið í stað í verðlagi á milli ára, og sterkari stöðu krónunnar og afnámi tolla hefur verið skilað að fullu inn í lægra vöruverð í þeim tilfellum sem Selasetrið flytur vörurnar inn.

Mat á stofnstærð landsela

Síðastliðið sumar fóru fram talningar á  landsel við  Ísland þar sem flogið var með  allri strandlengju landsins og selir taldir. Flugtalningarnar eru gerðar til að meta fjölda landsela og fylgjast með þróun stofnstærðar.  Sambærilegar talningar á landsel hófust árið 1980 og var stofnstærðin þá metin um 33.000 dýr. Niðurstöður talningarinnar síðasta sumar gefa til kynna að fjöldi landsela við Íslandsstrendur sé um 7.700 dýr og er það minnkun frá síðustu talningu sem fram fór árið 2011 þegar fjöldinn var metinn 11-12.000 dýr.

Árið 2014 voru landselir taldir í stærstu landselslátrum landsins og komu þar fram vísbendingar um umtalsverða fækkun og niðurstöðurnar frá sl. sumri staðfesta að töluverð fækkun hefur átt sér stað í landselsstofninum á undanförnum árum og hefur stofn landsels minnkað um þriðjung frá árinu 2011. Núverandi stofnstærð er tæplega 80% minni en þegar stofnin var fyrst metin 1980. Samkvæmt viðmiðum stjórnvalda um stofnstærð landsela á Íslandi skal stofninn ekki fara niður fyrir 12.000 einstaklinga, en fari svo telja stjórnvöld nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Stofninn er nú metinn vera tæplega 40% minni en viðmið stjórnvalda gefa til kynna.

Mesta fækkunin í stofninum átti sér stað á milli 1980 og 1990 þegar selir voru veiddir í mun meiri mæli en nú. Selveiði á sér ennþá stað og mögulegt er að fækkunin geti að hluta til skýrst af þeim en meðafli sela í fiskveiðum gæti einnig verið skýribreyta. Aðrir þættir s.s. hlýnun sjávar og breytingar í magni og útbreiðslu fæðu selanna gætu einnig haft áhrif.  Þrátt fyrir vísbendingar um mikla fækkun er mikilvægt að hafa í huga að náttúrulegar sveiflur í stofnum villtra dýra eiga sér oft stað og frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að hægt sé að segja fyrir um ástæður fækkunarinnar með einhverri vissu.

Nálgast má skýrsluna hér: hafogvatn2017-009

Viðgerðir á vefsíðu

Svo leiðinlega vildi til að heimasíða Selaseturs Íslands lá niðri dögunum vegna tæknilegra örðugleika. Unnið er að viðgerðum og uppsetningu á nýrri síðu og er vonast til þess að hún verði komin að fullu í loftið á næstu dögum.

Afsakið ónæðið.

Gestakomur í Selasetur Íslands hafa aldrei verið fleiri

Árið 2016 komu 39.223 gestir inn á upplýsingamiðstöð ferðamanna í Húnaþingi vestra, sem staðsett er í Selasetrinu. Þetta er 44% fjölgun frá 2015.

Flestar urðu gestakomurnar þegar 10.809 gestir komu í Selasetrið, en ágúst fylgdi þar skammt á eftir með 10.508.

Rétt rúm 30% gesta upplýsingamiðstöðvarinnar fóru inn á safn Selasetursins árið 2016 eða 11.996.

Þegar þetta er ritað í miðjum janúar 2017 hafa gestakomur rúmlega þrefaldast á milli ára miðað við allan janúar 2016.

Aðgangseyrir óbreyttur

Verð á aðgöngumiðum inn á safn Selaseturs Íslands verður óbreytt árið 2017.

Rqaunar hefur aðgangseyrir safnsins ekki hækkað síðan 2012!

Upplýsingar um aðgangseyri og opnunartíma má nálgast hér