Á meðan Eldurinn logar í Húnaþingi verður Selasetrið opið 10-22 miðvikudag til laugardags. Happy hour á barnum frá 18-20.
Tilvalið og koma og fræðast um seli og rostunga, nýta sér góð tilboð í búðinni eða fá sér rjúkandi kaffi- eða kakóbolla eða öðruvísi hressandi drykk á barnum.
Sunnudaginn 30. júlí kl. 11.00 verður Selatalningin mikla haldin á vegum Selaseturs Íslands á Hvammstanga. Við hvetjum alla til að taka þátt, hvort sem þú ert heimamaður, landeigandi eða ferðamaður á ferð þinni um landið. Strandlengjunni er skipt í mörg svæði þannig að allir ættu að geta fundið sér vegalengd sem hentar. Með þátttöku gefst fólki kostur á að skoða seli í sínu náttúrulega umhverfi.
Dagskrá dagsins:
Kl. 11:00 er afhending gagna, kynning og þjálfun á Selasetrinu. Kaffiveitingar í boði fyrir þátttakendur.
Kl. 12:00-16:00 fer selatalningin fram því það er háfjara um kl. 14:00. Talningargögnum er skilað á Selasetrið þegar talningu er lokið. Kaffiveitingar
Það er mikilvægt að telja einungis seli sem eru á þínu svæði, svo að hver selur sé aðeins talinn einu sinni.
Þú skráir niður alla seli sem þú sérð, hvort sem það er á landi, skeri eða í sjó, auk tímasetningar. Ef hægt er að greina á milli Landssels og Útsels, þá vinsamlegast skráið það líka.
Það er mikilvægt að muna, að ekki sjá allir seli, en það er jafn mikilvægt fyrir okkur að vita það og sjá seli.
Vinsamlega ferðastu af vargætni og án hávaða, þar sem það getur fælt selina áður en þú getur talið þá. Vinsamlegast ekki koma með hund af sömu ástæðu.
Vinsamlegast gangið vel um svæðin, gangið ekki yfir ræktuð svæði, virðið girðingar/hlið, ónáðið ekki dýrin og leggið bílum á öruggum stöðum.
Það er gott að hafa sjónauka með í för en það er ekki nauðsynlegt til þátttöku. Selasetrið á nokkra sjónauka og það er möguleiki að fá lánaðan sjónauka meðan birgðir endast.
——-
Markmið með selatalningunni er að styðja við frekari rannsóknir, með því að afla þekkingar á fjölda sela á þessum slóðum og þróa áfram sjálfbæra ferðamennsku í skoðun villtra dýra.
Talningin felst í því að telja seli á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, en svæðinu verður skipt upp í mörg misstór svæði (um 2-7km löng) og ættu allir finna allir vegalengd við sitt hæfi. Selatalningin mikla er skemmtileg upplifun og það er vel þess virði að koma og taka þátt í rannsóknarstörfum Setursins.
Til upplýsinga
Hér er slóð á almennar upplýsingar um selatalninguna miklu frá því árið 2007-2021 á wikipedia. https://Selatalningin_mikla
Miðvikdagskvöldið 19. júlí verða tónleikar á Selasetrinu með aac en sveitina skipa þau Ása Önnu Ólafsdóttir gítarleikari, Cammy Anderton fagottleikari og Ana Luisa Diaz de Cossio fiðluleikari. Sambræðsla tónlistarfólks frá Skotlandi, Mexíkó og Íslandi býður upp á spunatónlist þar sem áferð og hrynur víkkar sjóndeildarhring hlustenda.
Tónleikarnir hefjast kl: 20:00 og standa yfir í um 40 mín. Aðgangseyrir er 2.000 kr og hægt verður að kaupa létta drykki á barnum.
Í rúmt ár hefur Selasetrið verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni styrktu af Evrópusambandinu sem heitir STAR – Sustainable Tourism. Verkefnið snýst í stuttu máli um að leiðbeina fólk hvernig hægt er að ferðast með vistvænni hætti. Hefur í því samhengi verið hannað smáforrit og búinn til bæklingur/handbók sem nýtist bæði ferðamönnum og aðilum í ferðaþjónustunni sem vilja stunda vistvænni ferðamennsku.
Hér má sjá bæði handbókina og skjáskot af upphafssíðu smáforritsins/leiksins sem hægt er að nálgast á Play Store og við hvetjum fólk til að prófa.
Um miðjan júní fundaði hópurinn, sem samanstendur af aðilum frá Grikklandi, Rúmeníu, Spáni auk Íslands, í Aþenu þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins og næstu skref. Var það bæði gagnleg og ánægjuleg heimsókn og einn af hápunktunum var leiðsögn um Akrópólis. Hér má sjá nokkrar myndir frá þessari mögnuðu borg.
Sandra M. Granquist deildarstjóri selarannsóknadeildar var í áhugaverðu viðtali í Samfélaginu á Rás eitt á RÚV í síðustu viku. Þar fræddi hún hlustendur m.a. um stöðu selastofnsins við Ísland, breytingar á stærð hans síðustu áratugi og helstu áhrifaþætti.
Viðtalið hefst þegar um 20:14 mín. eru liðnar af þættinum en hérna er hlekkur á þáttinn: