Selatalningin mikla 2025

Samkvæmt venju fer Selatalningin mikla fram síðasta sunnudaginn í júlí, n.t.t. þann 27. júlí. Það er öllum velkomið að hjálpa til við talninguna. Nánari upplýsingar um það hvernig talningin fer fram má finna hérna.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með þvi að senda tölvupóst á selasetur@selasetur.is eigi síðar en fimmtudaginn 24. júlí.

Mikið líf á Miðfirði

Það hefur verið mikið af hvölum á Miðfirði síðustu vikurnar og það er gaman að horfa á allt lífið í sjónum fyrir utan Selasetrið. Í gærkvöldi voru nokkrir hnúfubakar í ætisleit ansi nærri landi sem var magnað að fylgjast með.

Erasmus+ LTT2 viðburður í Tyrklandi

Í síðustu viku fór fram LTT2 (Learning, Teaching, Training) viðburður í Tyrklandi í tengslum við Erasmus+ verkefnið Climate Challenge Adventure sem Selasetrið stýrir. Gestagjafinn var Bilnet skólinn í Balikesir sem er rúmlega 300 þús. manna borg í vestur Tyrklandi.

Þarna hittust allir aðilar verkefnisins og nemendur og kennarar frá Íslandi, Danmörku og Tyrklandi prófuðu nýstárlegar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar og stuðla að sjálfbærni með leikjamiðaðri menntun, stafrænni frásögn og umhverfisvænum starfsháttum.

Viðburðurinn var afar vel heppnaður og það var gaman að kynnast tyrkneskri menningu og gestrisni. Hluti af ferðalaginu var viðkoma í Istanbul sem er mögnuð borg, bæði hvað varðar stærð og sögu.

Næstu á dagskrá verkefnisins eru litlir staðbundnir viðburðir hjá öllum aðilum verkefnisins sem verða haldnir í lok maí og byrjun júní. Næsti LTT-viðburður verður svo á Hvammstanga um miðjan september.