
Selveiðar og verkun sels eru hluti af menningu Íslendinga, en selir hafa verið veiddir hér við land allt frá landnámstíð. Fyrr á öldum voru þeir aðallega nýttir til matar, spikið var notað sem ljósgjafi og skinnin í ýmis konar fatnað. Í dag er selurinn nær eingöngu veiddur vegna skinnanna en kjötið er að mestum hluta urðað. Skinnin eru nýtt í ýmis konar fatnað, tískuvörur og muni. Selveiðar hafa þó dregist mjög mikið saman undanfarna áratugi. Nú á dögum hefur verðmæti selsins sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn aukist til muna, enda einstaklega skemmtileg dýr til að skoða í návígi.
Af sumum er selurinn talinn mikill vágestur þar sem hann gangi á nytjastofna og stofni laxveiðum í hættu. Einnig beri hann svo kallað selorm til nytjafisks sem feli í sér mikinn kostnaðarauka fyrir fiskvinnsluna.

Á safninu er snertiskjár sem sýnir ferðalög útselskópsins Snorra fyrstu mánuðina eftir að hann fæddist. Mjög stuttu eftir að hann fæddist var settur sendir á hann sem sýndi hvar hann hélt sig og hvert hann fór. Það er magnað að fylgjast með þessu ferðalagi.
