Selasetrið kynnir með stolti

Í 20 ár hefur eitt af aðalverkefnum Selasetursins verið að styðja við og stuðla að sjálfbærri selaskoðun. Selasetri tók fyrir mörgum árum þátt í verkefni sem kallaðist „Hið villta norður“ (e. The Wild North). Fjöldi aðila tók þátt í verkefnum og ein af afurðum þess voru hegðunarleiðbeiningar (e. Code of Conduct) fyrir ferðamenn sem ætla í fugla-, refa-, hvala- og/eða selaskoðun.

Það er mikilvægt að leiðbeina ferðamönnum sem ætla að njóta náttúru landsins. Það sem snýr helst að Selasetrinu er vissulega að leiðbeina þeim sem ætla í selaskoðun. Þannig verður líklegra að upplifun gesta okkar verði jákvæð og á sama tíma drögum við úr hættunni á því að selirnir verði fyrir ónæði.

Nýjast verkfærið í þessari vinnu okkar er stutt teiknimynd byggð á fyrrnefndum hegðunarleiðbeiningum um selaskoðun. Teiknimyndin er án texta og tals svo sem flestir skilji hana, óháð aldri eða tungumálaþekkingu. Hún var gerð af Gagarín og styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og Samfélagssjóði Landsbankans.

Hér er hlekkur á teiknimyndina, endilega deilið af vild.
https://www.youtube.com/watch?v=XhgejjkOS_w

Selatalningin mikla 2025 – niðurstöður

27. júlí fór Selatalningin mikla fram þegar um 35 sjálfboðaliðar gengu strandlengjuna frá Reykjaskóla og inn Sigríðarstaðavatn, samtals rúmlega 100 km. Talningin hófst með fyrirlestri kl. 14:30 og lauk með grillveislu fyrir sjálfboðaliða. Þar sem þetta var 15. talningin á 20 ára afmælisári Selasetursins þá var hún með veglegra móti, þökk sé Húnaþingi vestra, Ölgerðinni og KVH. Ekki má svo gleyma landeigendum sem gefa okkur leyfi til að fara um land sitt til að telja.

Því miður var niðurstaðan í ár ekki sú sem við höfðum vonast eftir því 445 selir voru taldir en þeir voru 550 í 2024 og 549 árið áður. Það ber þó að hafa í huga að árið 2012 voru 422 selir taldir og 2015 voru þeir 446 þannig að vonandi mun talningin koma betur út að ári. Þetta er hins vegar áminning um það að við verðum að fylgjast vel með þróun selastofnanna við Ísland sérstaklega í ljósi þess að íslenski landselurinn er í útrýmingarhættu.

Vinningshafar leyniorðaleiksins

Við þökkum þær frábæru undirtektir sem Leyniorðaleikurinn okkar fékk í Eldsvikunni. Alls tóku 54 þátt í honum og ákváðum við að draga út 4 vinningshafa í stað 3ja vegna góðrar þátttöku.
Eftirfarandi vinningshafa eiga nú 6.000 þús. kr. inneign í verslun Selasetursins.
               – Antonin Trávnicek
               – Julie Hen
               – Saga Mjöll Einarsdóttir
               – Sigurður Hugi Þórarinsson

Ef einhverjir eiga eftir að prófa leikinn og langar að spreyta sig þá verður hann áfram á safninu a.m.k. út næstu viku.

Selatalningin mikla 2025

Samkvæmt venju fer Selatalningin mikla fram síðasta sunnudaginn í júlí, n.t.t. þann 27. júlí. Það er öllum velkomið að hjálpa til við talninguna. Nánari upplýsingar um það hvernig talningin fer fram má finna hérna.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með þvi að senda tölvupóst á selasetur@selasetur.is eigi síðar en fimmtudaginn 24. júlí.