Erasmus+ LTT2 viðburður í Tyrklandi

Í síðustu viku fór fram LTT2 (Learning, Teaching, Training) viðburður í Tyrklandi í tengslum við Erasmus+ verkefnið Climate Challenge Adventure sem Selasetrið stýrir. Gestagjafinn var Bilnet skólinn í Balikesir sem er rúmlega 300 þús. manna borg í vestur Tyrklandi.

Þarna hittust allir aðilar verkefnisins og nemendur og kennarar frá Íslandi, Danmörku og Tyrklandi prófuðu nýstárlegar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar og stuðla að sjálfbærni með leikjamiðaðri menntun, stafrænni frásögn og umhverfisvænum starfsháttum.

Viðburðurinn var afar vel heppnaður og það var gaman að kynnast tyrkneskri menningu og gestrisni. Hluti af ferðalaginu var viðkoma í Istanbul sem er mögnuð borg, bæði hvað varðar stærð og sögu.

Næstu á dagskrá verkefnisins eru litlir staðbundnir viðburðir hjá öllum aðilum verkefnisins sem verða haldnir í lok maí og byrjun júní. Næsti LTT-viðburður verður svo á Hvammstanga um miðjan september.

Tilkynning frá Selasetri Íslands – ráðning framkvæmdastjóra

Selasetur Íslands hefur ráðið Örvar Birkir Eiríksson sem framkvæmdastjóra frá og með áramótum. Jafnframt hefur Páll L. Sigurðsson látið af störfum frá og með sama tíma.

Gunnlaugur Ragnarsson stjórnarformaður og Örvar Birkir Eiríksson nýr framkvæmdastjóri Selaseturs

Örvar er fæddur árið 1976 og uppalinn á Syðri-Völlum í Kirkjuhvammshreppi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann hefur verið tíður gestur á heimaslóðum í gegnum tíðina þar sem foreldrar hans búa enn. Örvar hefur því mikla og sterka tengingu við samfélagið í Húnaþingi vestra.

Örvar er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og stundað auk þess MA nám í sama fagi og diplómanám í markaðs- og útflutningsfræðum. Nú síðast lauk hann M.Ed. gráðu í kennslu samfélagsgreina frá Háskóla Íslands. Örvar er kvæntur Erlu Björgvinsdóttur þroskaþjálfa og eiga þau samtals fimm börn.

Örvar starfaði m.a.  um 7 ára skeið í Viðey við menningartengda ferðaþjónustu og í 9 ár sem verslunarstjóri í alþjóðlegri verslunarkeðju. Síðustu ár hefur hann starfað sem kennari.

Stjórn Selaseturs Íslands býður Örvar velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins við hann. Jafnframt þakkar stjórnin Páli L. Sigurðssyni kærlega fyrir samstarfið og vel unnin störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

Lyklaafhending – Páll og Örvar

f.h. stjórnar Selaseturs Íslands ehf.
Gunnlaugur Ragnarsson
Stjórnarformaður

Jólakveðja

Selasetur Íslands óskar landsmönnum öllum til sjávar og sveita gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Framkvæmdastjóri – Selasetur Íslands

Laus er staða framkvæmdastjóra við Selasetur Íslands á Hvammstanga.

Selasetur Íslands var stofnað 2005 og er hlutverk þess að standa fyrir rannsóknum á selum og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Megin markmið setursins er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á og standa fyrir margvíslegar rannsóknir, fræðslu og upplýsingamiðlun við Ísland. Starfsstöð framkvæmdastjóra er á Hvammstanga sem er fjölskylduvænt samfélag við Húnaflóann.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Stjórnun og stefnumótun fyrir Selasetur Íslands
  • Öflun rannsóknarstyrkja innanlands og utan
  • Rekstrar- og fjármálastjórnunarsetursins
  • Uppbygging náttúru- og menningartengdra ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
  • Móttaka gesta og miðlun þekkingar
  • Umsjón með rekstri upplýsingaþjónustu ferðamanna

Menntun og Reynsla:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, td viðskiptafræði, ferðamálafræði, stjórnmálafræði eða náttúruvísindum
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla af styrkumsóknum og utanumhaldi um styrki
  • Leiðtogahæfileikar, frumkvæði og samskiptahæfni
  • Góð tungumálakunnátta er æskileg

Stefnt er að því að nýr framkvæmdastjóri hefji störf um áramótin. Umsóknarfrestur til og með 7. desember 2022 . 

Með umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf. Nánari upplýsingar veitir Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is

Selasetur Íslands endurnýjar samkomulagið við Hafrannsóknarstofnun

Selasetur Íslands og Hafrannsóknarstofnun endurnýjuðu samstarfssamning sinn í lok október 2022. Samkomulagið kveður á um eflingu á rannsóknum á selum við Ísland á starfsstöðinni á Hvammstanga. Þá sérstaklega vöktun á stofnstærð útsels og landsels. Auk þess að sinna gagnasöfnun og rannsóknum sem stuðla að bættri ráðgjöf í samræmi við stjórnunarmarkmiða stjórnvalda.

Aðilar eru sammála um að leita leiða til að fjölga starfsmönnum þannig að styrkja megi rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands og starfsstöð Hafrannsóknarstofnunar á Hvammstanga.

Samkomulagið er ótímabundið og lítur Selasetur Íslands björtum augum til framtíðar.

Illugastaðir er frægur selaskoðunarstaður á Vatnsnesi og Selasetrið stundar rannsóknir þar