Sjálfbærnistefna Selasetursins

TILGANGUR

Tilgangur Selasetursins er að styðja við vísindastarf um selinn og vistkerfi hans í nánasta umhverfi, stuðla að miðlun upplýsinga og fræðslu um selinn á Íslandi til heimamanna, skólabarna, námsmanna og ferðamanna. Sjálfbærni er undirstaða alls starfs Selasetursins og markmið setursins að stuðla að vexti og viðhaldi selastofnsins við Ísland og ekki síst í kringum Vatnsnesið. Þessi stefna útlistar hvernig stefna Selasetursins er í sjálfbærnimálum innan umhverfis, samfélags og stjórnarhátta.

UMHVERFI

Selasetrið skal ávallt umgangast náttúruna og umhverfið af virðingu og með sjálfbærni í huga. Þetta skal gert innanhús með því að lágmarka orkunotkun, sorp og huga að hlutverki allra aðfanga og úrgangs í hringrásarhagkerfinu. Takmarka skal alla notkun kemískra efna, loftmengandi efna og annarra efna sem skaðleg geta verið náttúrunni, svo sem skordýraeitur, hreinsiefni eða tilbúinn áburð.

Selasetrið skal stuðla að betri skilningi á náttúrunni og þá sérstaklega vistkerfi selsins, nærumhverfi Selasetursins og sambýli manns og náttúru. Þetta skal gert með stuðningi við rannsóknir vísindamanna á selnum og vistkerfi hans, með miðlun upplýsinga til ferðamanna sem fara um svæði selsins eða hafa áhuga á að fræðast um hann og með miðlun upplýsinga til skólahópa og námsfólks.

Unnið skal markvisst að því að fá sjálfbærnivottun á Selasetrið og að því að minnka kolefnissporið jafnt og þétt þar til kolefnishlutleysi hafi verið náð. Mæla skal orkunotkun, vatnsnotkun, sorpmagn og kolefnisspor Selasetursins á ári hverju.

SAMFÉLAG

Selasetrið er hluti af samfélaginu á Hvammstanga og hefur skyldum að gegna gagnvart því. Ávallt skal leitast við að eiga í góðu samtali við nærsamfélagið, opna á samstarf á mismunandi sviðum eins og við á, ráða heimamenn til starfa þegar kostur er og láta gott af sér leiða til samfélagsins.

Meginhlutverk Selasetursins er miðlun upplýsinga til samfélagsins, bæði heimamanna og ferðamanna, auka skilning þeirra á hlutverki selsins í vistkerfinu sem og í samfélaginu bæði fyrr og síðar, og hvetja alla gesti sína til þess að umgangast bæði selinn og náttúruna í heild sinni með virðingu og umhyggju, og stuðla að sjálfbærni hennar á hvern þann hátt sem unnt er.
Selasetrið mun leggja sig fram um að styðja við bakið á þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu í nærsamfélaginu.

STJÓRNUNARHÆTTIR

Undirstaða starfs Selasetursins er starfsfólk þess. Ætíð skal tryggja að starfsfólk vinni í góðu og heilnæmu starfsumhverfi, komið sé fram við það af virðingu og fordómaleysi og að starfskjör þess séu eftir gildandi samningum vinnumarkaðarins hverju sinni, s.s. vinnutíma, aðstöðu, kjör og lágmarksaldur. Efla skal starfsfólk með upplýsingamiðlun og tækifærum til þekkingaröflunar og þekkingarmiðlunar.

Ætíð skal stjórn Selasetursins byggja á heiðarleika, gagnsæi og sterku siðferði, góðum stjórnunarháttum og virðingu fyrir lögum og gildum samfélagsins. Ætíð skal liggja fyrir áhættumat vegna starfsemi Selasetursins og viðbragðsáætlun fyrir hugsanlegar krísur.

Selasetrið líður ekki fordóma, áreitni eða einelti af neinu tagi. Selasetrið er vinnustaður sem býður upp á jafna möguleika og gerir ekki upp á milli fólks vegna aldurs, kyns, fötlunar, uppruna eða trúarbragða.