Selatalningin mikla

Verið velkomin að taka þátt í Selatalninguna miklu í lok júlí á hverju ári.

Dagskrá: Mæting á Selasafnið, afhending gagna, kynning og þjálfun. Kaffiveitingar í boði fyrir þátttakendur. Síðan fer sjálf selatalningin fram.


Ævintýrið hófst árið 2007 með selatalningu á Vatnsnesinu og hefur farið reglulega fram síðan, nú síðast sumarið 2024. Eitt af markmiðum Selaseturs er að fræða almenning um seli og um þær selarannsóknir sem Selasetrið stendur fyrir, þessi viðburður er liður í því. Það hefur sýnt sig að Selatalningin mikla gefur vísbendingar um stöðu selastofnsins á landsvísu.

Hér má sjá helstu niðurstöður:

2007 voru taldir 727 selir við Vatnsnes í lok ágúst (72 km).
2008 voru taldir 1.126 selir við Vatnsnes og Heggstaðanestá (78 km).
2009 voru taldir 1.019 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2010 voru taldir 1.054 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107km).
2011 voru taldir 843 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2012 voru taldir 422 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2013 voru taldir 742 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2014 voru taldir 707 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (78 km).
2015 voru taldir 446 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2016 voru taldir 580 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2021 voru taldir 718 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2022 voru taldir 595 selir við Vatnsnes í lok júlí (72 km).
2023 voru taldir 549 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).
2024 voru taldir 550 selir við Vatnsnes og Heggstaðanes (107 km).

Nánari upplýsingar um viðburðinn og niðurstöðurnar má finna hér á wikipedia.

Upplýsingar fyrir sjálfboðaliða

Það er gott að hafa bíl til umráða og það hjálpar að hafa sjónauka meðferðis.

Það sem hafa ber í huga áður en farið er að stað:

  • Það er ætlast til að sjálfboðaliðar gangi mjög vel um landið, spilli engu og skilji við svæðið eins og það kemur að því. Það má alls ekki fara yfir ræktað svæði, virða ber dýr og girðingar/hlið.
  • Áætla má að gönguleiðin taki smá tíma, allt að 1-3 tímum. Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og útivistarfatnaði. Veður á staðnum getur breytst með skömmum fyrirvara og því gott að fylgjast með veðurspá og taka með sér nesti.
  • Leggið bílum á öruggan hátt og alls ekki uppá þjóðvegi.
  • Gengið er meðfram fjörunni og því ber gott að fylgjast vel með þegar það byrjar að flæða að.
  • Hafa ber í huga að það er jafn mikilvægt að finna engan sel á sínu svæði og finna sel. Báðar þessar upplýsingar eru mjög mikilvægar fyrir rannsakendur.

Hegðunarviðmið í selaskoðun:

Við minnum á að fara varlega í kringum selina og passa að trufla sem minnst. Þá er gott að hafa eftirfylgjandi í huga:

  • Verum varkár, því þetta er griðastaður selanna og við erum gestir.
  • Verndum selina frá truflun á meðan við erum í selaskoðun.
  • Virðum fjarlægðatakmarkanir við selina (100m) og snertum aldrei seli
  • Hreyfum okkur varlega, höfum ekki hátt og köstum aldrei hluti í kringum selina
  • Við færum okkur lengra frá ef selirnir sýna merki um truflun – aukna árverkni (lyfta hausnum eða flýja).
  • Nálgumst aldrei kópa sem virðast einir, því urtan er yfirleitt nálægt þó við sjáum hana ekki.
  • Selirnir hræðast dróna – vinsamlegast notið þá ekki.