Hringrásarhagkerfið og nærandi ferðaþjónusta (CE4RT)

Í rúmt ár hefur Selasetrið verið þátttakandi í Evrópuverkefninu CE4RT eða hringrásarhagkerfið og nærandi ferðaþjónusta (e. Circular Economy for Regenerative Tourism) ásamt 16 öðrum íslenskum fyrirtækjum sem og rúmlega 60 fyrirtækjum frá Finlandi, Póllandi, Hollandi og Írlandi.
Verkefnið samanstóð af fjölda netfyrirlestra auk fræðsluferðar um Suðurland og ráðstefnu á Írlandi sem var lokapunktur verkefnisins. Ráðstefnan var haldin á Skellig hótelinu á Dingle skaganum sem er vestarlega á Írlandi. Þar var grænt og fagurt um að litast þrátt fyrir að komið væri framyfir miðjan nóvember.

Stærsti ávinningur Selasetursins af CE4RT verkefninu var hins vegar að það styrkti þátttakendur í ráða sér ráðgjafa til að liðsinna við að ná sér í umhverfisvottun. Selasetrið var svo heppið að fá Hjört Smárason hjá Saltworks sem ráðgjafa en hann hefur unnið að stefnumótunarvinnu fyrir NV-land fyrir SSNV og þekkir því svæðið vel.

Eftir talsverða vinnu og ýmsar lagfærslur á Selasetrinu fékk það Green Key umhverfis- og sjálfbærnivottun í lok júlí sl. Green Key er vottun sem nýtur sífellt meiri vinsælda og eru núna yfir 6.000 fyrirtæki í yfir 70 löndum með Green Key vottun. Á Íslandi eru 21 fyrirtæki með þessa vottun en Selasetrið er fyrsta fyrirtækið í afþreyingarflokki (e. attraction) til að fá Green Key vottun á Íslandi.
Green Key vottunin er stór áfangi á þeirri vegferð Selasetursins að stuðla áfram að sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra þar sem selurinn er að sjálfsögðu í aðalhlutverki.