Selasetrið hefur staðið fyrir umfangsmiklum talningum á landselsstofninum við Ísland.
Til þess að hægt sé að stuðla að jafnvægi í landselsstofni Íslands er fyrsta skrefið að afla upplýsinga um stærð stofnsins. Það er mikilvægt til þess að forðast offjölgun landsela og þar með hættu á auknum áhrifum þeirra á náttúruna og til þess að forðast að stofninn minnki um of og lendi á válista, enda eru landselir mikilvægur þáttur í íslensku vistkerfi. Nauðsynlegt er að hafa upplýsingar um vöxt og viðgang dýralífs við Ísland sem grunn undir alla löggjöf varðandi náttúru Íslands og ráðgjöf um veiði og nýtingu stofnanna. Þá eru stofnstærðarupplýsingar mikilvægar vegna margvíslegra rannsókna á náttúru landsins. Talningarnar eru einnig hluti af vöktun NAMMCO (Norður – Atlantshafs sjávarspendýraráðið) á stofnstærðum sela við Norður-Atlandshafið. Flugtalningar á landsel við strendur Íslands hafa verið framkvæmdar ellefu sinnum síðan árið 1980.Árið 1980 voru landselir til staðar í öllum landshlutum, en voru flestir í Faxaflóa, Breiðafirði og á NV-landi.Á tímabilinu 1980-2006 fækkaði landselum samkvæmt útreikningum að meðaltali um 4%, en hefur staðið í stað síðan þá. Talningar lágu niðri frá árinu 2006 þar til Selasetrið fór af stað að nýju með talningu á landsel um allt land árið 2011. Það var mjög mikilvægt og er markmið Selasetursins að gera slíkar talningar annað hvort ár í framtíðinni.
Verkefnisstjórar: Sandra Granquist og Erlingur Hauksson