Hringrásarhagkerfið og nærandi ferðaþjónusta (CE4RT)

Í rúmt ár hefur Selasetrið verið þátttakandi í Evrópuverkefninu CE4RT eða hringrásarhagkerfið og nærandi ferðaþjónusta (e. Circular Economy for Regenerative Tourism) ásamt 16 öðrum íslenskum fyrirtækjum sem og rúmlega 60 fyrirtækjum frá Finlandi, Póllandi, Hollandi og Írlandi.
Verkefnið samanstóð af fjölda netfyrirlestra auk fræðsluferðar um Suðurland og ráðstefnu á Írlandi sem var lokapunktur verkefnisins. Ráðstefnan var haldin á Skellig hótelinu á Dingle skaganum sem er vestarlega á Írlandi. Þar var grænt og fagurt um að litast þrátt fyrir að komið væri framyfir miðjan nóvember.

Stærsti ávinningur Selasetursins af CE4RT verkefninu var hins vegar að það styrkti þátttakendur í ráða sér ráðgjafa til að liðsinna við að ná sér í umhverfisvottun. Selasetrið var svo heppið að fá Hjört Smárason hjá Saltworks sem ráðgjafa en hann hefur unnið að stefnumótunarvinnu fyrir NV-land fyrir SSNV og þekkir því svæðið vel.

Eftir talsverða vinnu og ýmsar lagfærslur á Selasetrinu fékk það Green Key umhverfis- og sjálfbærnivottun í lok júlí sl. Green Key er vottun sem nýtur sífellt meiri vinsælda og eru núna yfir 6.000 fyrirtæki í yfir 70 löndum með Green Key vottun. Á Íslandi eru 21 fyrirtæki með þessa vottun en Selasetrið er fyrsta fyrirtækið í afþreyingarflokki (e. attraction) til að fá Green Key vottun á Íslandi.
Green Key vottunin er stór áfangi á þeirri vegferð Selasetursins að stuðla áfram að sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra þar sem selurinn er að sjálfsögðu í aðalhlutverki.

Sæljón í heimsókn

Í byrjun ágúst sett Markaðsstofa Norðurlands upp þrjú listaverk á Norðurstrandarleið, sem hluti af því að efla enn frekar áhuga og kynningu á leiðinni. Listaverkin voru unnin af hópi listafólks frá Úkraínu sem kallar sig UNDRUN/Dyvyna DECOR. Verkefnið var unnið í samstarfi við Ferðamálasamtök Norðurlands vestra, með styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Partur af þessu verkefni var sæljón sem sett var upp á Hvammstanga og bjóðum við það velkomið. Vegna framkvæmda verður það á öruggum stað á stéttinni fyrir framan Selasetrið í vetur en endanleg staðsetning verður ákveðin með vorinu.
Það má því segja að þó að selurinn sé að sjálfsögðu alltaf í aðalhlutverk hjá okkur, þá fögnum við því að vera núna með bæði styttu af sæljóni og sýningu Náttúruminjasafnins Íslands um rostunga.

Nýr samstarfssamningur Selaseturs Íslands og Náttúrustofu Norðurlands vestra

Undanfarin ár hafa Selasetur Íslands og Náttúrustofa Norðurlands vestra (NNV) verið í nánu og góðu samstarfi. Hér á Hvammstanga hafa verið staðsettir starfsmenn frá NNV sem hafa verið virkir þátttakendur í því vísindasamfélagi sem hér er. Nýlega var skrifað undir nýjan samstarfssamning Selasetursins og NNV og við hjá Selasetrinu fögnum því innilega að framhald verði á þessu góða samstarfi.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Starra Heiðmarsson forstöðumann NNV og Örvar B. Eiríksson framkvæmdastjóra Selasetursins við undirritun samningsins.

Heimsókn matvælaráðherra

Selasetur Ísland fékk á dögunum góðan gest þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra sótti setrið heim. Heimsóknin var liður í vinnuferð ráðherra þar sem hún heimsótti m.a. starfsstöðvar Hafrannsóknastofnunnar á landsbyggðinni.

Selasetrið og Hafrannsóknastofnun hafa um árabil unnið mikið saman að selarannsóknum við Ísland en þeim er að mestu sinnt hér á Hvammstanga. Það var bæði gott og gagnlegt að ræða samstarfið, hlutverk Selasetursins og stöðu selastofnsins við ráðherra.

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var á sjaldséðum sólardegi, má sjá ráðherra ásamt Gunnlaugi Ragnarssyni stjórnarformanni Selasetursins, Örvari B. Eiríkssyni framkvæmdastjóri, Hafþóri Magnúsi Kristinssyni starfsmanni og Söndru M. Granquist dýraatferlis- og vistfræðingi.

Nýtt stofnmat á íslenska útselnum

Búið er að birta niðurstöður talninga á útsel við Ísland haustið 2022 og má lesa um niðurstöðurnar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunnar. Í stuttu máli þá fjölgaði í stofninum um 6,8% en það telst ekki marktæk fjölgun og stendur stofninn því í stað. Telst íslenski útselsstofninn því áfram í áhættuflokknum „í nokkurri hættu“ (e. vulnerable).

Sjá nánar:
https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/stofnmat-a-utsel-vid-island