Sela- og fuglaskoðun

Við Vatnsnesið gefst fólki kostur á að skoða landsel í sínu náttúrulega umhverfi, en þar hefur verið töluverð uppbygging á aðstöðu til selaskoðunar á síðastu árum. Helstu skoðunarstaðir við Vatnsnesið eru nú  Illugastaðir (vesturströnd) og Ósar/Hvítserkur (austurströnd). Sögufrægasti staðurinn er hins vegar Hindisvík sjálf, en henni hefur nú verið lokað fyrir umferð ferðamanna, sem og Svalbarð.

Athugið! Selir liggja helst uppi um háfjöru, en eru við veiðar á flóði. Einnig er ólíklegt að margir selir liggi uppi í miklum vindi og rigningu. Til að fá upplýsingar um selaskoðunarskilyrði við Vatnsnesið, vinsamlegast hafið samband við afgreiðslu Selasetursins.

Upplýsingar um Sjávarföll má finna hér.

Vert er að hafa í huga að villt dýr, líkt og selir og fuglar, geta verið viðkvæm fyrir umferð manna og því ber að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar þau eru skoðuð:

  • Til að njóta heimsóknar í sellátur til fulls er nauðsynlegt að vera útbúinn góðum sjónauka. Ekki er æskilegt að fara nær selum á landi en ca. 100 metra. Ef dýrin breyta hegðun sinni, gerast óróleg eða flýja í burtu frá þér er það  merki um að þú sért kominn of nálægt.
  • Til að ná góðum myndum af dýrunum er nauðsynlegt að vera útbúinn myndavél með góðri aðdráttarlinsu. Það er frekar ólíklegt að ná góðum myndum af selum og fuglum á venjulegar myndavélar.
  • Gakktu rólega og hljóðlega um heimkynni villtra dýra. Forðastu hróp, köll, hlaup og snöggar hreyfingar.
  • Þó selir séu afskaplega fallegir, geta þeir einnig verið hættulegir ef þeim er ógnað. Vinsamlegast snertið því ekki veik eða særð dýr, heldur látið vita á afgreiðslu Selasetursins eða til landeigenda.
  • Vinsamlegast snertið ekki kópa sem villst hafa frá móður sinni. Hættulegt getur verið að fara á milli kóps og urtu.
  • Vinsamlegast snertið ekki fuglsunga, eða veika og/eða særða fugla heldur látið vita á afgreiðslu Selasetursins.
  • Leyfið dýrunum að skoða ykkur, forvitinn selur getur t.d. synt ansi nálægt sé honum ekki ógnað á neinn hátt. Tillitsemi borgar sig.


View Seal Watching Locations in a larger map