Landselur (Phoca vitulina)

Landselur

Landselur er algengasti selurinn við Íslandsstrendur og heldur hann helst til við norðvestanvert landið. Selurinn getur orðið um 2 m að lengd og rétt yfir 100 kg að þyngd fullvaxinn og eru brimlarnir stærri en urturnar.

Urtur kæpa einum kópi í júní og ala önn fyrir honum í 3 – 4 vikur. Kóparnir eru um 80 cm að lengd og 10 kg að þyngd við fæðingu. Þeir fæðast í gráum hárum, en kasta hvítum fósturhárum þegar í móðurkviði. Að kópauppeldi loknu fara dýrin úr hárum. Því líkur í ágúst og fer þá mökunin fram. Eftir mökun fara dýrin utar og halda til við útsker í ætisleit. Landselir ferðast lítið og einungis ung dýr flakka landshorna á milli. Eldri dýr koma ár eftir ár á sömu slóðir til kæpinga, líklega á æskuslóðirnar.
Algengasta fæða landsela eru smáþorskur, karfi, síli, ufsi, síld, steinbítur, flatfiskar, loðna o. fl.

Landselur er útbreiddur um allt Norðurhvel, en fer ekki inn í Norður-Íshafið svo heitið geti. Landselsstofninn á Norðurhveli telur um 400.000 dýr, en fer minnkandi vegna víruspestar í Norðursjó. Við Ísland var landselsstofninn árið 2003 einungis um 10.000 dýr, eða þriðjungur þess sem hann var árið 1980. Fækkunin hefur mest orðið í Breiðafirði, Faxaflóa, við Suðurströndina og Austfirði. Árið 2003 voru flestir landselir á svæðinu frá Ströndum til Skaga (við Húnaflóa).

Mynd: Jón Baldur Hlíðberg