Áhrif landsels á laxfiska

Verkefnið hófst árið 2009. Markmið rannsóknanna er að áætla áhrif sela sem dvelja á ósasvæðum á laxfiskastofna og laxveiði í ám.

  • Fæðuval landsela við árósa: Fæðuval landsela er kannað með mismunandi aðferðum, svo sem ákvörðun fisktegunda eftir kvörnum  úr maga- og saursýnum sela, greiningum á stöðugum samsætum og DNA greiningum. Lögð er áhersla á að kanna mikilvægi laxfiska í fæðu selanna. Fæðuval sela sem dvelja við ósasvæðin er einnig borið saman við fæðuval þeirra sela sem dvelja annarstaðar við landið.
  • Hreyfimynstur Landsela í Bjargósi/Sigríðastaðaósi í Húnaþingi vestra: Viðvera sela á ósasvæðinu er könnuð með reglulegum talningum á sel, ásamt því að selir hafa verið merktir með útvarpsmerkjum. Þannig er hægt að kanna hvað hver einstaklingur er oft á ósasvæðinu og hvað hann dvelur þar lengi í hvert sinn.
  • Ummerki eftir seli á laxfiskum: Óbein áhrif landsela á laxveiðar hafa einnig verið könnuð með því að biðja laxveiðimenn í helstu ám í Húnaþingi vestra og Austur Húnavatnssýslu að skrá ummerki eftir sel á veiddum laxfiskum.
    Verkefnisstjóri: Sandra Granquist

Verkefnið er unnið í samstarfi við Veiðimálastofnun, BioPol ehf, Stokkhólmsháskóla, Náttúrugripasafnið í Stokkhólmi og Veiðifélög í Húnaþingi.